bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Algengar spurningar

Hvað er „umboðsmaður borgarbúa“?

 • Embætti umboðsmanna má rekja allt aftur til Svíþjóðar í upphafi 19. aldar. Í þessum skilningi felur orðið „umboðsmaður“ í sér þann sem kemur fram fyrir hönd borgaranna og gætir hagsmuna þeirra og réttinda gagnvart stjórnvöldum. Í sinni algengustu mynd starfar slíkur umboðsmaður á grundvelli sérstakrar löggjafar og hefur eftirlit með því að stjórnsýslan starfi í samræmi við lög og reglur.
 • Umboðsmaður borgarbúa er sjálfstæður og óháður aðili innan borgarkerfisins sem ætlað er að styrkja tengslin á milli þeirra sem til hans leita og Reykjavíkurborgar. Þannig stuðlar umboðsmaður að auknu réttaröryggi í tengslum við stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar.
 • Staða umboðsmanns sem óháður milliliður á milli borgarbúanna og borgarinnar og þekking hans á stjórnkerfi hennar veitir umboðsmanni einstaka innsýn og stöðu til þess að leysa þau vandamál sem kunna að rísa í samskiptum borgarbúa og borgarinnar og veita ábendingar og ráðleggingar til þess að bæta þjónustu við íbúana.

Hvað gerir umboðsmaður og hvernig getur embættið aðstoðað mig?

 • Umboðsmaður borgarbúa starfar á grundvelli samþykktar um störf embættisins. Umboðsmaður tekur til meðferðar ábendingar og kvartanir borgarbúa og annarra þeirra sem eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg um það sem betur mætti fara í stjórnsýslu og þjónustu hennar. Umboðsmaður leitast við að rétta hlut borgarbúans í þeim tilvikum þegar á rétt hans er hallað. Ef tilefni er til tekur umboðsmaður kvörtun til ítarlegrar rannsóknar og lýkur viðkomandi máli með útgáfu álits og/eða tilmæla til Reykjavíkurborgar um það sem betur mætti fara. Umboðsmaður getur auk þess tekið mál til rannsóknar að eigin frumkvæði.
 • Að öðrum kosti getur umboðsmaður veitt þeim sem til hans leita ráðgjöf varðandi samskipti þeirra við borgarkerfið og þá málsmeðferð sem Reykjavíkurborg er skylt að veita í máli hverju. Sú ráðgjöf getur eftir atvikum falist í leiðbeiningum um kæruleiðir og aðstoð við málskot eða möguleika og heimildir til endurupptöku ákvarðana Reykjavíkurborgar. Umboðsmaður getur auk þess boðið sáttamiðlun þar sem líkur eru á því að ágreining á milli borgarinnar og þess sem leitað hefur til umboðsmanns megi leysa með slíkri aðkomu.
 • Loks getur umboðsmaður, í þeim tilvikum þar sem ljóst er að óhóflegar tafir hafa orðið á málsmeðferð Reykjavíkurborgar, aðstoðað við koma því máli í réttan farveg og knúið á um afgreiðslu þess.

Get ég leitað til umboðsmanns ef ég er starfsmaður Reykjavíkurborgar?

 • Starfsfólk Reykjavíkurborgar getur líkt og aðrir borgarbúar leitað til umboðsmanns vegna stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar. Auk þess getur starfsfólk og aðrir samstarfsaðilar komið á framfæri ábendingum um mistök eða réttarspjöll í stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar sem viðkomandi hefur orðið var við í störfum sínum. Við slíkar aðstæður er umboðsmaður bundinn sérstakri þagnarskyldu um þann aðila sem kemur upplýsingum á framfæri.
 • Starfsfólk getur jafnframt komið á framfæri ábendingum um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af einstaka málum.
   

Hvernig kem ég á framfæri kvörtun til umboðsmanns? Þurfa gögn að fylgja kvörtun?

 • Hægt er að koma á framfæri kvörtun eða öðrum ábendingum við umboðsmann í gegnum rafrænt kvörtunarform á heimasíðu embættisins. Auk þess er hægt að hafa samband við umboðsmann í gegnum netfangið umbodsmadur@reykjavik.is og á símatíma alla miðvikudaga á milli kl. 10-12 í gegnum símanúmerið 411-1111. Þá er öllum velkomið að líta við á skrifstofu umboðsmanns sem staðsett er að Tjarnargötu 12, 101 Reykjavík.
 • Gott er að kvörtun til umboðsmanns fylgi allar þær upplýsingar og gögn sem viðkomandi aðili hefur undir höndum, þ. á m. um þann sem leitar til umboðsmanns, og lýsing á málavöxtum og því sem kvörtunin beinist að auk gagna, svo sem tölvupóstsamskipta og bréfa. Umboðsmaður getur þess utan óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem Reykjavíkurborg hefur undir höndum.

Hverjir geta leitað til umboðsmanns borgarbúa?

 • Allir þeir, bæði einstaklingar og lögaðilar, sem eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg með einum eða öðrum hætti geta leitað til umboðsmanns borgarbúa. Sem dæmi má nefna þá sem nota þjónustu Reykjavíkurborgar eða þá sem leitað hafa til borgarinnar með fyrirspurn eða umsókn sem varðar réttindi viðkomandi eða skyldur.
 • Ekki er nauðsynlegt að þeir sem leita til umboðsmanns borgarbúa eigi lögheimili eða hafi fasta búsetu í Reykjavíkurborg.
   

Get ég leitað til umboðsmanns fyrir hönd einhvers annars?

 • Já, en í þeim tilvikum þarf sá sem leitar til umboðsmanns að hafa skriflegt umboð viðkomandi aðila eða fara með fyrirsvar fyrir aðila málsins.
 • Umboðsmaður borgarbúa getur þrátt fyrir það tekið upp að eigin frumkvæði málefni einstaklinga í kjölfar ábendinga annarra.
   

Nær starfssvið umboðsmanns til allrar starfsemi sem tengist Reykjavíkurborg?

 • Starfssvið umboðsmanns takmarkast við stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar. Bílastæðasjóður Reykjavíkur og Félagsbústaðir hf. eru hluti stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar og falla undir starfssvið umboðsmanns.
 • Starfsemi fyrirtækja sem Reykjavíkurborg hefur aðkomu að sem eigandi í samvinnu við önnur sveitarfélög, t.d. Orkuveitan, Strætó bs. og Sorpa bs., fellur utan starfssviðs embættisins.
 • Auk þess tekur umboðsmaður ekki til meðferðar kvartanir eða ábendingar sem snúa að pólítískum ákvörðunum um þjónustustig, starfsmannastefnu eða aðstæðum starfsmanna Reykjavíkurborgar á vinnustað eða málum sem þegar eru til meðferðar hjá lögbundnum úrræðum, t.d. á æðra stjórnsýslustigi, dómstólum eða umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður leitast á hinn bóginn eftir fremsta megni við að veita þeim sem til hans leita ráðgjöf og leiðbeiningu um réttan farveg mála.
 • Umboðsmaður borgarbúa metur sjálfur hverju sinni hvort kvörtun eða ábending sem berst embættinu falli undir starfssvið þess.
   

Þarf ég að koma kvörtun eða ábendingu á framfæri innan ákveðinna tímamarka?

 • Kvörtun til umboðsmanns skal bera fram innan árs frá því að þeim stjórnsýslugerningi sem um ræðir, þ.e. sú ákvörðun eða athöfn Reykjavíkurborgar sem kvartað er yfir, var til lykta leiddur eða þeim samskiptum við Reykjavíkurborg sem orðið hafa tilefni til kvörtunar eða ábendingar lauk.
 • Umboðsmaður getur þó vikið frá þessum fresti þyki tilefni til, t.d. í þeim tilvikum þar sem sá sem leitar til umboðsmanns hefur enn lögvarinna réttinda að gæta vegna málsins.
   

Get ég komið á framfæri nafnlausri kvörtun?

 • Flest mál sem rata til umboðsmanns krefjast þess að umboðsmaður viti hvern málið varðar. Á umboðsmanni og öðru starfsfólki embættisins hvílir hins vegar lögbundin trúnaðar- og þagnarskylda sem áréttuð er í samþykkt um starfsemi embættisins. Sú skylda helst þrátt fyrir starfslok. Nafnlaus ábending getur leitt til þess að umboðsmaður taki málið upp sem frumkvæðismál.
 • Þegar starfsfólk Reykjavíkurborgar eða aðrir samstarfsaðilar hennar koma á framfæri upplýsingum vegna mistaka eða réttarspjalla sem þeir hafa orðið áskynja í starfi sínu og snýr að stjórnsýslu eða þjónustu Reykjavíkurborgar er umboðsmaður bundinn sérstakri þagnarskyldu um þann aðila sem veitir upplýsingarnar.
   

Hvaða áhrif hafa niðurstöður umboðsmanns í einstökum málum? Geta niðurstöður umboðsmanns leitt til þess að agaviðurlögum verði beitt gagnvart því starfsfólki Reykjavíkurborgar sem í hlut á?

 • Telji umboðsmaður tilefni til þess að taka mál til sérstakrar meðferðar og rannsóknar, umfram það að veita ráðgjöf eða leiðbeiningu, getur umboðsmaður lokið máli með útgáfu álits á því hvort ákvörðun eða athöfn Reykjavíkurborgar hafi brotið í bága við lög, reglur eða skráða stefnumörkun. Getur umboðsmaður við þær aðstæður jafnframt komið á framfæri tilmælum um úrbætur. Reykjavíkurborg er á hinn bóginn ekki bundin af niðurstöðu umboðsmanns í einstöku máli, ekkert frekar en niðurstöðum umboðsmanns Alþingis eða umboðsmanns barna. Ætli Reykjavíkurborg ekki að lúta áliti umboðsmanns ber henni að tilkynna um þá afstöðu og veita ítarlegan rökstuðning fyrir henni.
 • Afgreiðslur umboðsmanns eru lagðar fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar til kynningar. Leiði rannsókn máls í ljós ítrekuð og alvarleg brot upplýsir umboðsmaður ráðið sérstaklega um það.
 • Niðurstaða umboðsmanns getur ein og sér ekki leitt til þess að það starfsfólk Reykjavíkurborgar sem hafði aðkomu að þeirri ákvörðun eða athöfn sem umboðsmaður telur ámælisverða verði beitt sérstökum agaviðurlögum, t.d. áminningu. Ákvörðun um viðbrögð við niðurstöðum umboðsmanns er í höndum Reykjavíkurborgar.
   

Er umboðsmaður raunverulega sjálfstæður gagnvart borgaryfirvöldum?

 • Umboðsmaður borgarbúa og starfsfólk embættisins eru starfsmenn Reykjavíkurborgar og njóta réttinda og bera skyldur á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 líkt og annað starfsfólk borgarinnar. Á grundvelli samþykktar um starfsemi embættisins er umboðsmaður þó algjörlega óháður öðrum einingum innan borgarkerfisins, þ. á m. borgarstjórn, og nýtur faglegs sjálfstæðis í störfum sínum.
 • Eina aðkoma annarra aðila innan borgarkerfisins að starfsemi umboðsmanns felst í heimild borgarstjórnar eða stjórnkerfis- og lýðræðisráðs til þess að beina tilmælum til umboðsmanns um að mál verið tekið til meðferðar sem frumkvæðismál af hálfu umboðsmanns. Auk þess kynnir umboðsmaður niðurstöður sínar fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráði með reglubundnum hætti.