bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Á L I T UMBOÐSMANNS BORGARBÚA í máli nr. 46/2017

Dagsetning álits: 
Mánudagur, nóvember 27, 2017

Til umboðsmanns leitaði A, einn umsækjenda um starf á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Voru af hálfu A gerðar athugasemdir við ráðningarferlið að því leyti að annars vegar hefðu tveir umsækjenda verið ráðnir, hvor um sig í 50% starf, og hins vegar við það hæfnismat sem farið hefði fram á umsækjendum við ráðninguna. Í kjölfar erindis borgarbúans aflaði umboðsmaður gagna vegna ráðningarinnar og forsendna hennar. Umboðsmaður taldi ljóst að auglýsing vegna starfsins hefði borið það með sér að leitað væri eftir einum starfsmanni sem ráða ætti í fullt starf. Auk þess taldi umboðsmaður með hliðsjón af þeim gögnum sem embættinu bárust tilefni til að athuga hvort gætt hefði verið að hæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ráðninguna. Með hliðsjón af því óskaði umboðsmaður eftir almennum athugasemdum vegna ráðningarferlisins og skýringum skóla- og frístundasviðs á því að vikið hafi verið með ofangreindum hætti frá auglýsingu vegna starfsins.

Með hliðsjón af þeim svörum sem umboðsmanni bárust frá sviðinu taldi umboðsmaður hvorki tilefni til þess að gera sérstakar athugasemdir við það hæfnismat sem fram fór við ráðningarferlið í heild sinni né aðkomu starfsmanna að ráðningarferlinu sem tengdust umsjónarfólki ráðningarinnar. Að því er varðar hið síðarnefnda tók umboðsmaður þó fram að þær hæfisreglur sem mælt væri fyrir um í lögum fælu í sér lágmarksreglur. Í því samhengi vísaði umboðsmaður til þess að það væri í betra samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti og bætta ásýnd stjórnsýslunnar að starfsmaður Reykjavíkurborgar tæki ekki þátt í ráðningarferli þar sem samstarfsmaður viðkomandi væri á meðal umsækjenda. Umboðsmaður taldi hins vegar að sú leið sem farin hefði verið við ráðninguna, þ.e. að ráða tvo umsækjendur í hálft starf, hefði ekki verið í samræmi við reglur og sjónarmið um auglýsingaskyldu þegar kemur að ráðningum í störf á vegum hins opinbera. Taldi umboðsmaður í áliti sínu að ljóst að við slíkar aðstæður hefði farið betur á því að hætta við ráðningu í starfið og auglýsa að nýju og þá með hliðsjón af hinum breyttu forsendum. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til skóla- og frístundasviðs að höfð yrði hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í áliti hans við ráðningar í störf á vegum sviðsins í framtíðinni.

 

 

Á L I T

UMBOÐSMANNS BORGARBÚA

í máli nr. 46/2017

I.

Kvörtun

Til umboðsmanns borgarbúa leitaði, með erindi dags. 23. mars 2017, A (hér eftir borgarbúinn) vegna ráðningar í starf verkefnisstjóra Bataskólans af hálfu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem auglýst var í fjölmiðlum og á vef Reykjavíkurborgar þann 31. desember 2016. Sneru athugasemdir borgarbúans annars vegar að því að við ráðningu í starfið hafi verið horfið frá því sem fram kom í auglýsingu, þ.e. að endingu hafi tveir einstaklingar verið ráðnir í stöðuna í 50% starfshlutfalli en í auglýsingu hafi verið gert ráð fyrir að einn einstaklingur yrði ráðinn í fullt starf, og hins vegar að því að ekki hafi verið gætt að þeirri meginreglu að ráða beri hæfasta umsækjandann hverju sinni þegar kemur að ráðningum í starf á vegum hins opinbera. Hvað hið síðarnefnda varðar gerði borgarbúinn athugasemdir við það að hafa ekki verið boðaður í viðtal með hliðsjón af fyrri starfsreynslu hans.

Auk ofangreinds taldi umboðsmaður einnig tilefni til þess að kanna nánar hvort við ráðningu í umrætt starf hafi verið gætt hæfisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.

Málsatvik

Starf verkefnisstjóra Bataskólans var eins og áður sagði auglýst á vef Reykjavíkurborgar og í Fréttablaðinu þann 31. desember 2016. Í henni kom m.a. fram:

„Geðhjálp og Reykjavíkurborg auglýsa eftir ástríðufullum verkefnisstjóra til að vinna að stofnun og rekstri bataskóla (Recovery College) á Íslandi […] Stefnt er að því að hefja formlega starfsemi bataskólans haustið 2017. Æskilegt er að verkefnisstjóri bataskólans geti hafið störf eigi síðar en 1. febrúar 2017.“

Þá voru í auglýsingu talin upp helstu verkefni sem í starfinu fælust og þær hæfniskröfur sem gerðar væru til umsækjenda. Á meðal verkefna voru nefnd þátttaka og þróun bataskóla í Reykjavík, kynning á starfsemi skólans til samstarfsaðila og nemenda, ráðning ólíkra sérfræðinga og jafningjafræðara, stuðningur við þróun námsefnis og kennslu, yfirumsjón með skólastarfi og daglegum rekstri skólans og ábyrgð á þróun, árangursmælingum og gæðaeftirliti. Gerðar voru kröfur um háskólamenntun sem nýtist í starfi, leiðtogahæfileika, lipurð og einstaka hæfni í mannlegum samskiptum, áhuga á geðheilbrigðismálum auk þess að kostur væri að umsækjandi byggi yfir eigin reynslu á því sviði. Fyrir liggur að borgarbúinn sótti um starfið og að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafði umsjón með ráðningarferlinu. Eins og áður sagði lauk ráðningarferlinu með því að tveir umsækjendur voru ráðnir, hvor um sig í 50% starfshlutfalli. Var, eins og áður hefur komið fram, borgarbúinn ekki þar á meðal. Fyrir liggur, sbr. þær skýringar sem umboðsmanni hafa borist vegna málsins af hálfu skóla- og frístundasviðs, að í auglýsingunni sem birtist á vef Reykjavíkurborgar kom fram að um fullt starf væri að ræða.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2017, barst borgarbúanum rökstuðningur samkvæmt beiðni hans þar um. Þar kom fram að alls hefðu 27 einstaklingar sótt um stöðuna og að af þeim hefði 9 umsækjendum sem uppfylltu hæfniskröfur verið boðið til viðtals og að við það val hefði verið horft til þeirra hæfniskrafna sem fram komu í auglýsingu. Var borgarbúinn ekki á meðal þeirra. Í rökstuðningnum var einnig rakið með hvaða hætti þeir tveir umsækjendur sem ráðnir voru uppfylltu hæfiskröfur og gerð grein fyrir því að hvort um sig hefðu þau verið sátt við það fyrirkomulag að taka við hálfu starfi. Undir rökstuðninginn ritaði forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur en fyrir liggur að annar þeirra umsækjanda sem ráðinn var í stöðuna var á þeim tíma starfsmaður Námsflokkanna.

 

III.

Samskipti umboðsmanns borgarbúa og skóla- og frístundasviðs

1.

Með bréfi, dags. 21. apríl 2017, beindi umboðsmaður borgarbúa erindi sínu til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar þar sem gerð var grein fyrir erindi borgarbúans, málsatvikum eins og þau blöstu við umboðsmanni og skýringa sviðsins vegna athugasemda borgarbúans óskað. Í því samhengi fór umboðsmaður yfir þær réttarreglur sem gilda um þá skyldu Reykjavíkurborgar, sem handhafi opinbers valds, til þess að auglýsa með opinberum hætti þau störf sem til stendur að ráða í á vegum hennar og þau áhrif sem slík auglýsing kann að hafa á ráðningarferlið í heild sinni og gagnvart umsækjendum um hina auglýstu stöðu. Auk þess rakti umboðsmaður þau sjónarmið sem byggju að baki auglýsingaskyldu og kom m.a. eftirfarandi fram:

„ […] á meðal þeirra sjónarmiða er búa að baki auglýsingaskyldu og reglna um þau áhrif sem auglýsing hefur á ráðningarferlið eftir að hún hefur verið birt eru sjónarmið sem leiða má af jafnræðisreglu. Hér verður að huga að því að ákvörðun um ráðningu í starf á vegum hins opinbera er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga en af því leiðir að málsmeðferðar- og efnisreglur stjórnsýslulaganna gilda um ferlið. Í því samhengi er vert að minnast á að ákvörðun um að hætta við ráðningu, t.d. ef mat þess sem fer með ráðningarferlið er svo að hæfur umsækjandi hafi ekki sótt um starfið, telst einnig slík ákvörðun sem ber að birta og, eftir atvikum, rökstyðja gagnvart umsækjendum.“

Tók umboðsmaður fram að við fyrstu sýn yrði af auglýsingu vegna starfsins ráðið að ætlunin hafi verið sú að ráða í starf verkefnastjóra einn umsækjanda í fullt starf og sú niðurstaða fæli að mati umboðsmanns í sér stefnubreytingu við ráðningarferlið í heild sinni. Óskaði umboðsmaður af þessu tilefni eftir skýringum skóla- og frístundasviðs að því er varðar umrætt fráhvarf frá auglýsingunni.

Auk þess rakti umboðsmaður í erindi sínu þær reglur og sjónarmið sem eiga við um hæfnismat á umsækjendum um störf á vegum hins opinbera. Í samhengi við erindi borgarbúans miðaðist erindi umboðsmanns þó að þessu leyti einkum að boðun umsækjenda til viðtals og því svigrúmi sem opinber aðili hefur í þeim efnum, m.a. um þau sjónarmið sem ákvörðun um viðtalsboðun hvílir á. Tók umboðsmaður fram að hér yrði fyrst og fremst að líta til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglna stjórnsýsluréttarins um forsvaranlegt mat. Óskaði umboðsmaður af þessu tilefni eftir almennum athugasemdum og skýringum skóla- og frístundasviðs að þessu leyti auk upplýsinga um það hvernig sviðið tryggði að mat á umsækjendum færi fram á grundvelli forsvaranlegs mats og væri í samræmi við lög og reglur stjórnsýsluréttarins.

Loks rakti umboðsmaður hina matskenndu hæfisreglu 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og þau sjónarmið sem að baki hennar búa. Óskaði umboðsmaður eftir athugasemdum og skýringum skóla- og frístundasviðs varðandi þátt forstöðumanns Námsflokka Reykjavíkur við ráðningarferlið og ákvarðanatöku því tengdu í ljósi þess að annar þeirra umsækjenda sem ráðinn var í starf verkefnastjóra var á þeim tíma sem ráðningin fór fram einnig starfsmaður Námsflokkanna. Óskaði umboðsmaður í þessu samhengi eftir upplýsingum um það hvernig sviðið gætti að því hæfisreglur væru virtar við ráðningar í störf á vegum þess, t.d. að því leyti hvort til staðar væru verklagsreglur eða leiðbeiningar.

 

2.

Svör skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við erindi umboðsmanns borgarbúa bárust með bréfi, dags. 14. júní 2017. Með þeim svörum bárust einnig skjal undir heitinu „Verklag og leiðbeiningar um meðferð stjórnsýsluerinda á skóla- og frístundasviði (VR-003)“, matsblað vegna ráðningar í stöðu verkefnastjóra Bataskóla, þar sem fram kemur stigagjöf vegna mats á þeim umsækjendum sem boðaðir voru til fyrra viðtals, og loks afrit spurningalista sem lagður var fyrir alla umsækjendur sem boðaðir voru til fyrra viðtals. Á matsblaði þar sem stigagjöf við hæfnismat kemur fram er auk þess gerð grein fyrir þeim mælikvörðum sem stig voru gefin samkvæmt.

Að því er varðar auglýsingu vegna starfsins og þá niðurstöðu ferlisins að ráða tvo umsækjendur í hálft starf kemur fram af hálfu skóla- og frístundasviðs að ákvörðun þar um hafi verið tekin að loknu hæfnismati á öllum umsækjendum. Þeir tveir umsækjendur sem komu hæst út úr því mati, þ.e. að loknum tveimur viðtölum, kynningu umsækjenda og mati samkvæmt hæfiskröfum að öðru leyti, hafi verið ráðnir. Fær þetta stoð í þeim gögnum málsins sem borist hafa umboðsmanni. Af hálfu sviðsins kom hins vegar einnig fram í svörum þess til umboðsmanns að viðræður og ákvörðun um ráða tvo umsækjenda hefðu komið til að loknu hæfnismati en að almennt væri í málum sem þessum nauðsynlegt að hefja ráðningarferli að nýju, enda væri til staðar lítið svigrúm fyrir Reykjavíkurborg til þess að breyta grundvelli ráðningar eftir að ráðningarferlið sjálft væri hafið. Tók skóla- og frístundasvið fram að báðir þeir umsækjendur sem ráðnir voru hefðu verið reiðubúnir til þess að taka við fullu starfi.

Að því er varðar mat á hæfni umsækjenda kom fram af hálfu skóla- og frístundasviðs að af 27 umsækjendum hefði þeim verið boðið til fyrsta viðtals sem taldir voru uppfylla hæfniskröfur í auglýsingu, alls 9 talsins. Í þeim viðtölum hefði staðlaður spurningalisti verið lagður fyrir alla umsækjendur. Áætlaður hefði verið sami viðtalstími fyrir alla og að þeim loknum hefði frammistaða hvers umsækjanda verið metin til stiga. Í kjölfarið hafi fjórum umsækjenda verið boðið til síðara viðtals sem m.a. fólst í kynningu á ástæðum þess að viðkomandi sótti um starfið, hugmyndum þeirra um Bataskólann og þeim atriðum sem viðkomandi myndi leggja áherslu á við upphaf starfsemi skólans. Að loknum síðari viðtölum hafi frammistaða umsækjenda að nýju verið metin til stiga og loks þeir tveir einstaklingar ráðnir sem hæstu skoruðu í ferlinu í heild sinni.

Í svörum skóla- og frístundasviðs kemur auk þess fram að við val á þeim umsækjendum sem boðið var til fyrra viðtals hafi verið horft til ferilskráa og að ljóst hefði verið í upphafi að hæfniskrafan „brennandi áhugi á geðheilbrigðismálum, kostur að búa yfir eigin reynslu“ myndi vega þungt við það mat. Loks kom fram að farið hefði verið eftir áðurnefndu verklagi og leiðbeiningum, líkt og í öðrum málum sem til meðferðar sviðsins kæmu, sem og að mannauðsþjónusta sviðsins veitti ráðgjöf og aðstoð þegar kæmi að ráðningum í störf á vegum þess.

Loks, að því er varðar fyrirspurn umboðsmanns vegna hæfis þeirra starfsmanna sem komu að ráðningarferlinu, kom fram af hálfu skóla- og frístundasviðs að við ráðningar á vegum sviðsins væri ávallt gætt að hæfisreglum stjórnsýslulaga og að fyrir lægju sérstakar verklagsreglur að þessu leyti hjá sviðinu. Hvað varðar málið sjálft kom fram af hálfu sviðsins að forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur, sem eins og áður segir hafði aðkomu að ráðningarferlinu, hefði upplýst um það að samstarfsmaður hennar væri á meðal umsækjenda en að hún ekki talið að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hennar með réttu í efa.

 

IV.

Álit umboðsmanns borgarbúa

1.

Með hliðsjón af þeim gögnum málsins sem borist hafa umboðsmanni og svörum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að því er varðar mat á hæfni starfsmanna annars vegar og vegna meints vanhæfis starfsmanns er kom að ráðningarferlinu hins vegar telur umboðsmaður ekki fram komnar forsendur, sem og að ekki sé líklegt að slíkar forsendur kæmu fram við frekari rannsókn, sem benda til þess að málsmeðferð hafi verið áfátt að þessu leyti við ráðningu í starf verkefnastjóra Bataskólans. Hér telur umboðsmaður vert að geta þess að opinberum aðilum er, við ráðningar í opinber störf, ekki skylt að bjóða öllum umsækjendum til viðtals. Telur umboðsmaður að ekki hafi í málinu komið fram neitt þess efnis sem bendir til þess að mat á því hverjum umsækjenda yrði boðið til viðtals hafi verið óforsvaranlegt og ómálefnalegt eða í andstöðu við þær hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu. Í því samhengi vísar umboðsmaður fyrst og fremst til matsblaðs þar sem stigagjöf vegna hæfnismats, frammistöðu í viðtali og meðmæla kemur fram og spurningalista sem lagður var fyrir í fyrra viðtali en af gögnum tengdum hinu síðarnefnda má t.d. ljóst vera að svör viðmælenda hafi verið skráð niður.

Að því er varðar hina almennu hæfisreglu 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga og 6. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, telur umboðsmaður rétt að vísa til þess í fyrsta lagi að starfsmaður gætir að meginreglu sjálfur að eigin hæfi og í öðru lagi að almennt hefur ekki verið talið að starfssamband leiði eitt og sér til vanhæfis, heldur þarf annað og meira að koma til. Fyrir liggur að á skóla- og frístundasviði er við afgreiðslu stjórnsýsluerinda unnið samkvæmt formlegu verklagi þar sem m.a. er gerð grein fyrir þeim hæfisreglum sem starfsmönnum ber að gæta að. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur gerði í fyrsta lagi grein fyrir tengslum sínum við einn umsækjenda, sbr. 1. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga og í öðru lagi að viðkomandi fór ekki með formlegt ákvörðunarvald þegar kom að endanlegri ráðningu í stöðuna. Telur umboðsmaður engar hlutrænar ástæður sem gefa til kynna að umræddur starfsmaður hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins hafa komið fram og því ekki forsendur til staðar til þess að meta hvort tengsl umsækjanda og starfsmanns séu á þann hátt að þau valdi vanhæfi á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Að því sögðu er nauðsynlegt að hafa í huga að stjórnsýslulög hafa að geyma lágmarkskröfur sem eru gerðar til starfsemi stjórnsýslunnar. Er ekkert því til fyrirstöðu að fylgt sé strangari málsmeðferðarreglum en þar koma fram. Ávallt þarf að hafa í huga óskráðar kröfur sem gerðar eru til starfsemi stjórnvalda, bæði á grundvelli óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar  og sjónarmiða sem sækja stoð sína í kröfur um vandaða stjórnsýsluhætti. Stjórnvöld verða í starfsemi sinni að gæta að því að þau starfi á slíkan hátt að borgararnir treysti því að starfsemi þeirra sé til þess fallin að niðurstöður mála séu réttar að efni til og í samræmi við lög. Er því gerð krafa um að málsmeðferð sé þannig háttað að hún sé traustvekjandi. Af framangreindu leiðir að það er í betra samræmi við reglur og sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti að starfsmaður taki ekki þátt í ráðningarferli sem varðar samstarfs- eða undirmann sinn.

 

2.

Að því er varðar tilhögun auglýsingar vegna fyrirhugaðrar ráðningar í starfið og þá niðurstöðu ráðningarferlisins að ráðnir voru að endingu tveir umsækjenda í hálft starf hvor um sig vill umboðsmaður borgarbúa koma eftirfarandi á framfæri:

Ákvörðun um ráðningu, setningu eða skipun í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Við undirbúning og töku slíkra ákvarðana ber stjórnvaldi því að gæta ákvæða stjórnsýslulaga auk annarra óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Um ráðningu annarra starfsmanna sveitarfélaga en framkvæmdarstjóra gilda 56. og 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Af þessum ákvæðum, sbr. 74. og 75. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, þar sem fram kemur að lausar stöðu skuli auglýstar í samræmi við reglur um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar, leiðir annars vegar að almennt er Reykjavíkurborg skylt að auglýsa lausar stöður sem fyrirhugað er að ráða í og hins vegar að inntak auglýsingar um starf á vegum sveitarfélags ræðst að miklu leyti af kjarasamningum hverju sinni. Hér liggur fyrir að starfið var auglýst, eins og áður segir, þann 31. desember 2016, bæði í fjölmiðlum og á vef Reykjavíkurborgar.

Hvað varðar ákvörðun sem snýr að ráðningu í starf á vegum hins opinbera er ljóst að efni auglýsingar um starfið hefur grundvallarþýðingu fyrir ráðningarferlið í heild sinni og markar því farveg enda kunna réttmætar væntingar umsækjenda, og eftir atvikum annarra einstaklinga, að setja því skorður að þessum grundvelli sé breytt af hálfu stjórnvaldsins. Af þessu leiðir að sá sem að endingu ræður í starfið kann að vera bundinn við það sem fram kemur í auglýsingunni, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4469/2005, og er því almennt ekki heimilt að víkja frá lágmarkskröfum sem gerðar eru til rækslu starfsins samkvæmt auglýsingu né leggja annan grundvöll að mati á hæfni umsækjenda en þar kemur fram. Hér skipta að mati umboðsmanns máli þau grunnrök sem að baki auglýsingaskyldunni búa, þ.e. að með auglýsingu er annars vegar öllum þeim sem kunna að hafa áhuga á viðkomandi starfi gefið tækifæri til að fá upplýsingar um að það sé laust til umsóknar og til að sækja um og hins vegar kann hún að hafa í för með sér að breiðari hópur einstaklinga sæki um starf og aukast því líkurnar á því að hæfari einstaklingar sæki um starfið.

Auk ofangreinds telur umboðsmaður rétt að taka fram, í samhengi við þá staðreynd að í auglýsingu vegna starfsins sem birtist í fjölmiðlum kom ekkert fram um starfshlutfall, að í gildandi kjarasamnings Reykjavíkurborgar og starfsmannafélags Reykjavíkurborgar segir í 9.1.2. gr. að í starfsauglýsingu skuli að lágmarki greina m.a. starfshlutfall, ef ekki er um fullt starf að ræða. Sama skilyrði kemur fram í leiðbeiningum vegna ráðninga í störf á vegum Reykjavíkurborgar sem er að finna á innra vefsvæði hennar en eins og áður hefur komið fram, ræðst inntak auglýsingar að miklu leyti af kjarasamningum hverju sinni. Telur umboðsmaður því, líkt og fram kom í upphaflegu erindi embættisins til skóla- og frístundasviðs, að ljóst megi vera, hvað sem líður uppgefnum upplýsingum í umræddri auglýsingu, að ætlunin hafi verið sú að ráða verkefnastjóra í fullt starf. Í þessu samhengi er auk þess vert að taka fram að á þessu, þ.e. að greina beri frá starfhlutfalli í auglýsingu, er einnig byggt þegar kemur að ráðningu á vegum ríkisins, sbr. 4. gr. reglna um auglýsingu lausra starfa nr. 464/1996. Má af þessu draga þá ályktun að almennt verði að gera ráð fyrir því að upplýsingar um starfshlutföll hafi talsverða þýðingu fyrir þá einstaklinga sem áhuga hafa á auglýstu starfi og kunna að sækja um.

Að sama skapi, og með hliðsjón af sjónarmiðum þess efnis að auglýsing kunni að binda hendur þess sem fer ákvörðunarvald um ráðningu í starf á vegum hins opinbera, telur umboðsmaður að ráðningarferli þar sem vikið er frá þeim grundvelli sem lagður er að því í auglýsingu með þeim hætti sem hér hefur verið fjallað um sé verulegum annmörkum háð. Verður almennt að gera ráð fyrir því að við aðstæður sem þessar sé réttast að ljúka málinu með tilkynningu til allra umsækjenda og ráðningarferlið hafið að nýju með útgáfu nýrrar auglýsingar, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþings í máli nr. 7408/2013. Telur umboðsmaður borgarbúa þó rétt að geta þess hér að afstaða skóla- og frístundasviðs, eins og henni er lýst í svörum sviðsins til umboðsmanns, sbr. það sem áður hefur komið fram að því leyti, er í samræmi við þessa niðurstöðu.

 

V.

Niðurstaða

Í máli þessu er það niðurstaða umboðsmanns borgarbúa að ráðningarferli vegna ráðningar í starf verkefnastjóra við Bataskóla Reykjavíkur hafi verið annmörkum háð í ljósi þess að horfið hafi verið frá þeirri stefnu sem lögð var til grundvallar í ráðningarferlinu til að byrja með, þ.e. að ráðinn skyldi einn verkefnastjóri í fullt starf, og að endingu hafi tveir umsækjenda verið ráðnir í hálft starf hvor um sig. Beinir umboðsmaður af þessu tilefni þeim tilmælum til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að í framtíðinni verði gætt að þeim sjónarmiðum sem hér hafa fram komið að þessu leyti og að tilhögun auglýsinga vegna starfa á vegum sviðsins. Auk þess beinir umboðsmaður þeim tilmælum til skóla- og frístundasviðs að gætt verði að innbyrðis samræmi auglýsinga vegna starfa á vegum sviðsins, þegar þær eru birtar á fleiri vettvangi en einum.

Auk þess er það niðurstaða umboðsmanns að við meðferð málsins hafi ekki komið fram forsendur sem benda til þess að aðkoma forstöðumanns Námsflokka Reykjavíkur hafi brotið í bága við hina matskenndu hæfisreglu 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður beinir þó þeim tilmælum til skóla- og frístundasviðs að horft verði til þeirra sjónarmiða sem rakin voru að þessu leyti í álitinu að því er varðar óskráðar kröfur til stjórnsýslunnar og sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti.

Loks er það niðurstaða umboðsmanns að við meðferð málsins hafi ekki komið fram forsendur sem benda til þess að mat skóla- og frístundasviðs á hæfni umsækjenda hafi ekki verið forsvaranlegt eða í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.