bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Á L I T UMBOÐSMANNS BORGARBÚA í máli nr. 73/2013

Dagsetning álits: 
Föstudagur, maí 16, 2014

A leitaði til umboðsmanns borgarbúa og kvartaði yfir ákvörðun íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar um ráðningu B í starf þjálfara í vatnsleikfimi og leikfimi fyrir eldri borgara. Beindist kvörtun A að því að hann hefði ekki verið boðaður í viðtal vegna starfsins og að ekki hefði verið haft samband við meðmælendur hans. Taldi hann að rökstuðningur Reykjavíkurborgar hefði verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Einnig taldi hann að hæfasti einstaklingurinn hefði ekki verið ráðinn í starfið.

Umboðsmaður taldi að sá rökstuðningur sem íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar veitti A vegna ráðningar í starf leiðbeinanda fyrir vatnsleikfimi og leikfimi eldri borgara hefði ekki verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til íþrótta- og tómstundasviðs að verða við beiðni um nýjan rökstuðning, óskaði A eftir því, og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu.

Beindi umboðsmaður einnig þeim tilmælum til íþrótta- og tómstundasviðs að endurskoða verklag sitt þegar kæmi að beiðnum umsækjenda um rökstuðning varðandi starfsráðningar og að rökstuðningur yrði framvegis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga sem lúta að rökstuðningi, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Á L I T

UMBOÐSMANNS BORGARBÚA

í máli nr. 73/2013

 

I.

Kvörtun

Hinn 10. september 2013 leitaði A til umboðsmanns borgarbúa og kvartaði yfir ákvörðun íþrótta- og tómstundasviðs um ráðningu B í starf þjálfara í vatnsleikfimi og leikfimi fyrir eldri borgara. Beindist kvörtun A að því að hafa ekki verið boðaður í viðtal í ráðningarferli fyrir umrætt starf auk þess sem hann taldi að ekki hefði verið haft samband við meðmælendur hans. Auk þess benti kvartandi á að sá rökstuðningur sem Reykjavíkurborg lét honum í té að beiðni hans hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um framsetningu og efnislegt innihald rökstuðnings. Er það afstaða kvartanda að enginn teljandi rökstuðningur hafi falist í bréfinu og honum hafi ekki verið gert ljóst hvaða þættir réðu ákvörðun um ráðningu, hvaða vægi einstaka eiginleikar þess umsækjanda sem varð fyrir valinu höfðu í mati á hæfni hans og hvað réði því að sá sem ráðinn var hafi verið talinn hæfastur umsækjenda. Að lokum beindist kvörtun A að því að hæfasti einstaklingurinn hafi ekki verið ráðinn í starfið.

 

II.

Málavextir

Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar auglýsti í Fréttablaðinu og á vefsíðu Reykjavíkurborgar 29. júní 2013 laust starf leiðbeinanda fyrir vatnsleikfimi og leikfimi eldri borgara til eins árs. Umsóknarfrestur var til 14. júlí sama ár. Í auglýsingunni sagði m.a. :

Helstu verkefni og ábyrgð

·    Skipulagning á kennslutímum í vatnsleikfimi og leikfimi

·    Leiðbeina fullorðnum í vatnsleikfimi og leikfimi

·    Samráð og samvinna við forstöðumenn sundlauga

Menntunar- og hæfniskröfur

·    Menntun eða reynslu sem nýtist í starfi

·    Áhugi á að vinna með fólki

·    Frumkvæði og sjálfstæði

·    Færni í samskiptum

Starfshlutfall var auglýst 100% og var ráðningartími frá miðjum ágúst 2013 fram í miðjan ágúst 2014.

A sótti um starfið þann 1. júlí 2013 á heimasíðu Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is undir liðnum „Laus störf“ ásamt því að senda viðbótargögn í tölvubréfi til mannauðsráðgjafa íþrótta- og tómstundasviðs sama dag. Í kjölfarið var kvartanda tilkynnt að B hefði verið ráðin í starfið. Með bréfi dags. 19. ágúst 2013 óskaði A eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun íþrótta- og tómstundasviðs vegna ráðningar í laust starf leiðbeinanda fyrir vatnsleikfimi og leikfimi eldri borgara.

A barst rökstuðningur frá skrifstofustjóra íþróttasviðs hjá íþrótta- og tómstundasviði með bréfi dags. 28. ágúst 2013. Í honum var gerð grein fyrir fjölda umsækjenda sem voru nítján talsins en ekki kom fram fjöldi þeirra sem boðaðir voru í viðtal. Fyrir liggur að kvartandi var ekki einn þeirra. Síðan segir í rökstuðningnum:

„[B] er talin uppfylla best þær kröfur sem gerðar voru til starfsins. Í auglýsingu var óskað eftir reynslu eða menntun sem gæti nýst í starfi og þótti [B] hafa þá reynslu sem til þarf. [B] hefur starfað sem leiðbeinandi í vatnsleikfimi hjá ÍTR síðan í nóvember 2011 og hefur einnig kennt leikfimi í sal.“

Að lokum er tekið fram að um tímabundna ráðningu sé að ræða, fram á næsta sumar.

Eins og fyrr segir leitaði A til umboðsmanns borgarbúa þann 10. september 2013 með kvörtun sína.

 

III.

Samskipti umboðsmanns við íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar

Í tilefni af kvörtun A ritaði umboðsmaður borgarbúa bréf til íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2013, þar sem óskað var eftir almennum athugasemdum Reykjavíkurborgar auk allra þeirra gagna sem málinu tengjast og þýðingu hafa fyrir úrlausn málsins. Þá óskaði umboðsmaður eftir því að Reykjavíkurborg tilgreindi sérstaklega í umsögn sinni með hvaða hætti hún teldi þann rökstuðning sem veittur var kvartanda með bréfi, dags. 28. ágúst 2013, samrýmast ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svar barst frá framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs með bréfi, dags. 18. nóvember 2013. Þar segir orðrétt:

„Í auglýsingu vegna starfsins var óskað eftir manneskju með reynslu eða menntun sem gæti nýst í starfi, hefði áhuga á að vinna með fólki og sýndi frumkvæði og sjálfstæði sem og færni í samskiptum. [B] var talin uppfylla allar þær kröfur sem gerðar voru til starfsins. [B] er með BS gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík. [B] hefur starfað sem leiðbeinandi í vatnsleikfimi hjá ÍTR síðan í nóvember 2011 og hefur einnig kennt leikfimi í sal í nokkur ár. [B] fær mjög góð meðmæli fyrir sín störf og þykir búa yfir góðri færni í mannlegum samskiptum. Um tímabundna ráðningu er að ræða, fram á sumar 2014.“

Meðfylgjandi bréfi íþrótta- og tómstundasvið voru þrjú fylgiskjöl. Í fyrsta lagi gögn þar sem fram komu upplýsingar um starfsreynslu og menntun þess sem ráðin var, í öðru lagi gögn þar sem fram komu upplýsingar um starfsreynslu og menntun þess sem kvartaði og í þriðja lagi auglýsing um starfið.

Með bréfi, dags. 5. desember 2013, var A sent afrit af bréfi íþrótta- og tómstundasviðs og veittur 10 daga frestur frá móttöku bréfsins til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir A bárust umboðsmanni borgarbúa með bréfi, dags. 16. desember 2013.

 

IV.

Álit umboðsmanns borgarbúa

1.

Afmörkun athugunar

A kvartaði yfir því að hafa ekki verið ráðinn í starf leiðbeinanda fyrir vatnsleikfimi og leikfimi eldri borgara. Athugun umboðsmanns borgarbúa í máli A hefur eingöngu beinst að því hvort rökstuðningur sem íþrótta- og tómstundasvið veitti A með bréfi, dags. 28. ágúst 2013, hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kvörtun A laut einnig að því að hafa ekki verið boðaður í viðtal, að ekki hafi verið rætt við meðmælendur og að hæfasti einstaklingurinn hafi ekki verið ráðinn í starfið. Athugun umboðsmanns borgarbúa beinist þó ekki að þeirri aðferð sem viðhöfð var við ráðningu í starfið eða efnislegu mati íþrótta- og tómstundasviðs á umsækjendum.

2.

Lagagrundvöllur málsins

Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Nær gildissvið laganna til ákvarðana um ráðningu í opinber störf, sbr. athugasemdir með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283).

3.

 Rökstuðningur íþrótta- og tómstundasviðs

Í kvörtun A eru gerðar athugasemdir við rökstuðning íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 28. ágúst 2013, og því haldið fram að hann uppfylli ekki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvörðun um ráðningu, setningu eða skipun í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við undirbúning og töku slíkra ákvarðana ber stjórnvaldi því að gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ. á m. ákvæða V. kafla laganna um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl.

Almennt verður að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau hagi meðferð máls þar sem taka á stjórnvaldsákvörðun með þeim hætti að þeim sé unnt að gera skilmerkilega grein fyrir því í rökstuðningi hver sé lagalegur og efnislegur grundvöllur að niðurstöðu þess. Ef stjórnvald byggir ekki á skýrt afmörkuðum sjónarmiðum við undirbúning starfsveitingar er veruleg hætta á því að rannsókn málsins verði handahófskennd og að ekki verði lagður nægjanlega traustur grundvöllur að mati á því hver telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi.

Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. skal, þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur, enn fremur veita leiðbeiningar um nánar tilgreind atriði, þ. á m. um heimild aðila til þess að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 1. tölul. ákvæðisins. Að öðru leyti er ekki í stjórnsýslulögum kveðið á um efni tilkynningar um töku stjórnvaldsákvörðunar. Hins vegar hefur verið lagt til grundvallar að í tilkynningu um ráðningu í opinbert starf þurfi að gera öllum umsækjendum grein fyrir niðurstöðu stjórnvalds um hverjum umsækjenda hafi verið veitt starfið enda getur slíkt verið forsenda þess að umsækjandi sem telur á sér brotið með ákvörðuninni leiti réttar síns gagnvart veitingarvaldshafanum, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis frá 8. maí 2009 í máli nr. 5356/2008 og álit umboðsmanns Alþingis frá 4. júní 1999 í máli nr. 2202/1997.

Í 21. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt honum. Í athugasemdum við V. kafla sem fram koma í greinargerð með frumvarpi því er síðar varð að stjórnsýslulögum er fjallað um ástæður þess að ákveðið var að festa í lög almenna reglu um skyldu til eftirfarandi rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana. Þar segir að út frá sjónarmiðum um réttaröryggi og traust almennings á stjórnsýslunni verði að telja mikilvægt að stjórnvaldsákvörðunum fylgi rökstuðningur. Það sem helst mæli með almennri reglu um rökstuðning sé að slík regla er talin auka líkur á því að ákvarðanirnar verði réttar þar sem hún knýr á um það að stjórnvald vandi til undirbúnings ákvörðunar og leysi úr máli á málefnalegan hátt. Einnig segir að þegar rökstuðningur fylgi ákvörðun stuðli hann að því að aðili máls fái í raun skilið niðurstöðu þess þar sem hann geti staðreynt að ákvörðun eigi sér stoð í lögum og sé í samræmi við þau. Rökstuðningur fyrir ákvörðun geti því orðið til þess að aðili máls uni ákvörðun þótt hún sé honum óhagstæð. Af rökstuðningi geti aðila líka orðið ljóst að starfsmaður sem tekið hefur ákvörðun hafi verið í villu um staðreyndir máls eða að ákvörðun sé haldin öðrum annmarka. Þegar rökstuðningur fylgi ákvörðun eigi aðili máls auðveldara með að taka ákvörðun um það hvort leita eigi eftir endurupptöku, hvort kæra eigi ákvörðunina til æðra stjórnvalds eða bera málið undir dómstóla eða umboðsmann Alþingis ef skilyrði eru til þess. Þá sé ljóst að til þess að eftirlit æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis sé sem virkast verði að vera ljóst á hvaða grundvelli stjórnvaldsákvörðun sé byggð. Oft geti verið erfitt að staðreyna hvort ákvörðun sé t.d. byggð á ólögmætum sjónarmiðum, rangri túlkun réttarheimilda o.s.frv. ef henni hefur ekki fylgt rökstuðningur.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til efnis rökstuðnings. Þar segir nánar tiltekið í 1. mgr. 22. gr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Í 2. mgr. 22. gr. laganna kemur fram að þar sem ástæða er til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Ákvörðun um ráðningu í opinbert starf er að jafnaði matskennd stjórnvaldsákvörðun.

Í athugasemdum við 22. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í ákvæðinu sé ekki kveðið á um hversu ítarlegur rökstuðningur skuli vera. Að meginstefnu til eigi rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana að vera stuttur en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð. Við ráðningu í opinbert starf felst rökstuðningurinn í að skýra hvers vegna það hefur orðið niðurstaða stjórnvaldsins að ráða tiltekinn einstakling úr hópi umsækjenda. Umsækjandi um opinbert starf á hins vegar ekki kröfu á að hinn opinberi aðili lýsi í rökstuðningi til hans hvaða ástæður hafi ráðið því að hann hafi ekki verið ráðinn til starfans. Í rökstuðningi þarf því ekki að koma fram samanburður á þeim úr hópi umsækjenda sem óskað hafa eftir rökstuðningi og þeim sem hlaut starfið. Aðalatriðið er að sá sem óskar eftir rökstuðningi geti almennt gert sér grein fyrir því á grundvelli rökstuðningsins hvers vegna ákveðinn umsækjandi var ráðinn og hvað réði því að hann fékk starfið. Því verður best náð fram með því að í rökstuðningi komi fram lýsing á því hvers konar starfsmanni veitingarvaldshafi var að leita að og hvernig sá umsækjandi sem valinn var féll að þeirri lýsingu, sjá hér m.a. álit umboðsmanns Alþingis frá 8. maí 2009 í máli nr. 5356/2008.

Í samræmi við framangreint lagaákvæði ber í rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðningu í opinbert starf að gera viðhlítandi grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem réðu því að starfið var veitt þeim umsækjanda er það hlaut, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga og eftir atvikum hvert vægi þeirra hafi verið. Það leiðir jafnframt af 2. mgr. 22. gr. laganna að opinberum aðila sem ræður í starf sé skylt að gera í stuttu máli grein fyrir atriðum sem skiptu mestu varðandi starfshæfni þess umsækjanda sem varð fyrir valinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem byggt var á. Í þessu sambandi verður að taka tillit til þess að ekki er hægt að gera ráð fyrir að umsækjendur um opinbert starf hafi vitneskju um þær staðreyndir varðandi aðra umsækjendur sem talið er að skipti mestu máli við mat á starfshæfni þeirra. Almennt verður því að telja að ástæða sé til að gera í rökstuðningi sérstaka grein fyrir helstu upplýsingum um þann umsækjanda sem varð fyrir valinu og skiptu meginmáli við mat á starfshæfni hans. Í því sambandi er almennt ekki nægjanlegt að lýsa einvörðungu þeim staðreyndum um þann umsækjanda sem fékk starfið sem fram koma í umsókn hans, heldur verður viðtakandi rökstuðningsins að geta gert sér grein fyrir því með raunhæfum hætti á hvaða sjónarmiðum vinnuveitandinn byggði ákvörðun sína og eftir atvikum hvert vægi þeirra hafi verið. Því verður best náð fram með því að í rökstuðningi komi fram lýsing á því hvers konar starfsmanni vinnuveitandinn var að leita að og hvernig sá umsækjandi sem valinn var féll að þeirri lýsingu eins og áður segir.

Í rökstuðningi þeim sem íþrótta- og tómstundasvið veitti A með bréfi, dags. 28. ágúst 2013, er eingöngu að finna mjög knappa lýsingu á þeim umsækjanda sem ráðinn var svo til engan rökstuðning fyrir því hvers vegna hún var talin hæfust af umsækjendum. Í bréfinu er vikið að því að B hafi verið talin uppfylla best þær kröfur sem gerðar voru til starfsins og þótti hún hafa þá reynslu sem til þurfti en í auglýsingu var óskað eftir reynslu eða menntun sem gæti nýst í starfi. Auk þess hafði B starfað sem leiðbeinandi í vatnsleikfimi hjá ÍTR. Í rökstuðningi íþrótta- og tómstundasviðs er hins vegar hvergi vikið að þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar við ráðningu í starfið eða gerð grein fyrir því hvernig sá umsækjandi sem ráðinn var féll að þeim sjónarmiðum. Svar íþrótta- og tómstundasviðs við bréfi umboðsmanns borgarbúa, dags. 18. nóvember 2013, bætti einhverju við upphaflegan rökstuðning Reykjavíkurborgar. Í því bréfi var tekið fram að B hafi verið talin uppfylla allar þær kröfur sem gerðar voru til starfsins auk þess sem gerð var grein fyrir menntun hennar og tekið fram að til viðbótar við að hafa starfað sem leiðbeinandi í vatnsleikfimi hjá ÍTR hafi B einnig kennt leikfimi í sal í nokkur ár. Að lokum er tekið fram að B hafi fengið mjög góð meðmæli fyrir sín störf og þyki búa yfir góðri færni í mannlegum samskiptum.

Þegar horft er til efnis rökstuðningsins í bréfi íþrótta- og tómstundasviðs til A í heild sinni telur umboðsmaður borgarbúa að á það hafi skort að gerð væri nægjanlega grein fyrir því með almennum hætti hvaða meginsjónarmið, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga, réðu vali Reykjavíkurborgar á ráðningu B. Auk þess að þörf hafi verið á því að gera grein fyrir því hvernig sá umsækjandi sem ráðinn var féll að þeim sjónarmiðum, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Í auglýsingu um starfið voru gerðar ákveðnar kröfur til umsækjenda, þ.e. menntun eða reynsla sem nýtist í starfi, áhugi á að vinna með fólki, frumkvæði og sjálfstæði og færni í samskiptum. Eru þessar kröfur og hvernig B féll að kröfunum ekki ávarpaðar í hinum umdeilda rökstuðningi að öðru leyti en því að fjallað er um að B hafi haft reynslu sem leiðbeinandi í vatnsleikfimi hjá ÍTR frá í nóvember 2011 og að hún hafi kennt leikfimi í sal. Þá er ekki fjallað um vægi hvers kröfuliðar í matsferlinu og hvað hafi mestu ráðið við val á umsækjanda.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að sú skylda hvílir á Reykjavíkurborg að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi og hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að veitingarvaldshafi verði að sýna fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar við val á umsækjendum af hálfu stjórnvaldsins. Í gögnum málsins kemur ekkert fram um það með hvaða hætti framangreint mat fór fram við töku ákvörðunarinnar.

Af framangreindu telur umboðsmaður borgarbúa ljóst að efni framangreinds rökstuðnings íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, sem sendur var A með tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2010, hafi skort að lýsa með fullnægjandi hætti þeim sjónarmiðum sem réðu ákvörðun Reykjavíkurborgar um ráðningu B í starf leiðbeinanda fyrir vatnsleikfimi og leikfimi eldri borgara, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Ekki verður séð að A hafi verið gert kleift að gera sér grein fyrir því á grundvelli rökstuðningsins hvers vegna ákveðinn umsækjandi var ráðinn og hvað réði því að hann fékk starfið, ekki síst með hliðsjón af því að hann skilaði inn viðamiklum gögnum um menntun sína og starfsreynslu, sem er umtalsverð. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð með hvaða hætti samanburði var háttað á milli hans og þess einstaklings sem var ráðinn í starfið. Það er því niðurstaða umboðsmanns borgarbúa að sá rökstuðningur sem íþrótta- og tómstundasvið veitti A fyrir ráðningu í umrætt starf hafi ekki verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

 

V.

Niðurstaða

Það er niðurstaða umboðsmanns borgarbúa að sá rökstuðningur sem íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar veitti A vegna ráðningar í starf leiðbeinanda fyrir vatnsleikfimi og leikfimi eldri borgara hafi ekki verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður borgarbúa beinir þeim tilmælum til íþrótta- og tómstundasviðs að verða við beiðni um nýjan rökstuðning óski A eftir því og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

Umboðsmaður borgarbúa beinir einnig þeim tilmælum til íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar að endurskoða verklag sitt þegar kemur að rökstuðningsbeiðnum umsækjenda um störf og að rökstuðningur verði framvegis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga sem lúta að rökstuðningi, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.