bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Á L I T UMBOÐSMANNS BORGARBÚA í máli nr. 88/2013

Dagsetning álits: 
Miðvikudagur, mars 11, 2015

A leitaði til umboðsmanns borgarbúa og kvartaði undan álagningu gjalds Bílastæðasjóðs vegna meints stöðubrots hennar við Mýrargötu.

A andmælti álagningunni en Bílastæðasjóður hafnaði andmælum hennar. Á meðan Bílastæðasjóður hafði endurupptökubeiðni hennar til afgreiðslu héldu innheimtuaðgerðir vegna gjaldsins áfram. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort það hefði verið heimilt og hvort leiðbeiningarskyldu Bílastæðasjóðs gagnvart A hefði verið gætt.

Það var afstaða umboðsmanns að Bílastæðasjóður hefði ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart A sem hefði jafnframt valdið henni réttarspjöllum.

Umboðsmaður áréttaði skyldu Bílastæðasjóðs til að leiðbeina borgarbúum og beindi því til hans að koma upp skýru verklagi sem tryggði að þeirri leiðbeiningaskyldu yrði sinnt. Af leiðbeiningaskyldunni leiddi að Bílastæðasjóði væri rétt og skylt að afhenda skráð verklag til þeirra aðila sem andmæltu. Þeim tilmælum var beint til sjóðsins að yfirfara verkferla með það að markmiði að tryggja flæði framangreindra upplýsinga til þeirra sem andmæltu álögðum gjöldum hjá sjóðnum.

Í málinu lá fyrir að á meðan Bílastæðasjóður hafði endurupptökubeiðni A til afgreiðslu héldu innheimtuaðgerðir vegna gjaldsins áfram.

Umboðsmaður taldi að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að það verklag sem Bílastæðasjóður viðhafði á árinu 2000, hefði verið notað við meðferð málsins og ekki lægi fyrir skráð verklag um innheimtuaðgerðir á meðan mál væri til skoðunar hjá sjóðnum. Af eðli máls leiddi að borgarbúar og aðrir hefðu réttmætar væntingar til þess að innheimtuaðgerðir færu ekki fram á meðan Bílastæðasjóður endurskoðaði lögmæti álagningar. Væri ætlun sjóðsins að viðhafa það verklag að beiðni um endurupptöku máls frestaði ekki innheimtuaðgerðum væri rétt að sú aðferðafræði kæmi skýrt fram í þeim verklagsreglum sem kynntar væru þeim borgarbúum sem óskuðu eftir endurupptöku álagningar.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Bílastæðasjóðs að setja sér skýrt verklag um innheimtuferla er tæki til þeirra tilvika þegar álagningu væri andmælt og óskað eftir endurupptöku hennar. Aðeins þannig gætu borgarbúarnir gert sér grein fyrir því hvort og þá hvaða réttaráhrif endurupptökubeiðni hefði gagnvart skyldu til greiðslu hins álagða gjalds enda kynni kostnað að verða af innheimtuaðgerðum sem félli á borgarbúann á meðan hann stæði í þeirri trú að ekki væri endanlega búið að kveða á um skyldu hans til að greiða gjaldið.

 

Á L I T

UMBOÐSMANNS BORGARBÚA

 í máli nr. 88/2013

 

I.

Kvörtun

Til umboðsmanns borgarbúa leitaði A (hér eftir nefnd kvartandi) og kvartaði undan álagningu Bílastæðasjóðs í tengslum við meint stöðubrot hennar við Mýrargötu. Málsatvik eru með þeim hætti að kvartandi lagði bifreið sinni við Mýrargötu, nálægt veitingastaðnum Forréttabarnum, þann 25. júlí 2013. Kvartandi kvaðst ekki hafa orðið vör við skilti sem gæfi til kynna að óheimilt væri að leggja bifreið á þeim stað sem um ræðir. Þegar kvartandi kom að bifreið sinni nokkru síðar var búið að leggja gjald á hana samkvæmt 1. mgr. 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sama dag hafði kvartandi samband við Bílastæðasjóð og skilaði inn andmælum vegna álagðra gjalda en þeim andmælum var hafnað af Bílastæðasjóði hinn 29. júlí sama ár.

Í framhaldi af niðurstöðu sjóðsins hafði kvartandi samband við Bílastæðasjóð og óskaði eftir að málið yrði fellt niður. Fulltrúi Bílastæðasjóðs sá ekki ástæðu til að fella málið niður þar sem mat sjóðsins um að kvartandi hafi gerst brotlegur við framangreint ákvæði umferðarlaga væri óyggjandi. Kvartandi hafði samband á ný og kvaðst ósáttur við niðurstöðu sjóðsins vegna andmæla hans og óskaði eftir að fá samband við framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs. Var borgarbúanum leiðbeint um að senda honum tölvupóst sem kvartandi gerði hinn 8. ágúst 2013. Tölvupósturinn var hins vegar sendur á rangt netfang og náði því ekki til framkvæmdastjóra sjóðsins en mistökin komu ekki í ljós fyrr en mun síðar eða eftir að umboðsmaður borgarbúa ritaði sjóðnum bréf.

Hinn 14. ágúst 2013 fóru fulltrúar Bílastæðasjóðs á ný á vettvang og könnuðu umferðarmerkingar á umræddu svæði. Var niðurstaða vettvangsrannsóknarinnar að umferðamerkingum væri ekki ábótavant og að enginn vafi væri á um að kvartandi hefði framið stöðubrot í skilningi 1. mgr. 108. gr. umferðarlaga.

Ítrekunarbréf frá innheimtufyrirtækinu Momentum voru send kvartanda 12. og 26. ágúst 2013. Kvartandi átti tvö símasamtöl við fulltrúa Bílastæðasjóðs eftir að fyrra ítrekunarbréf sjóðsins barst og að sögn kvartanda lofaði fulltrúinn því m.a. að kanna málið betur og hafa samband í kjölfarið en tiltók að kvartandi þyrfti ekki að bregðast frekar við ítrekunarbréfum sjóðsins.

Kvartanda var ekki tilkynnt um afstöðu sjóðsins, þ.e. að álagningin yrði ekki felld úr gildi, fyrr en með tölvupósti frá Bílastæðasjóði hinn 4. september 2013.

Var kvartandi ósáttur við þau málalok og taldi að erfitt hefði verið að fá svör frá Bílastæðasjóði. Starfsmaður Bílastæðasjóðs hafi m.a. lofað að kanna málið betur og hafa samband en aldrei gert það. Þá var kvartandi ósáttur við að innheimtuaðgerðir héldu áfram á meðan sjóðurinn endurskoðaði ákvörðun sína enda væri ekki með endanlegum hætti búið að fella á kvartanda gjaldskylduna.

Umboðsmaður borgarbúa ritaði Bílastæðasjóði bréf þann 28. janúar 2014 vegna málsins. Þar rakti hann málsatvik eins og þau snéru að kvartanda, þ.e. að hann teldi að merkingum væri áfátt, Bílastæðasjóður hefði illa svarað erindum og gerði auk þess athugasemdir við verkferla í tengslum við innheimtu gjaldsins og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu- og vaxtakostnað. Þá óskaði umboðsmaður eftir skýringum á verklagi við niðurfellingu hluta af skuld með vísan í fyrri fordæmi í afgreiðslu sjóðsins. Benti umboðsmaður borgarbúa á að mismunandi afgreiðsla á sambærilegum málum gæti gengið í berhögg við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Þann 10. febrúar 2014 barst svar frá Bílastæðasjóði. Í bréfinu hafnar Bílastæðasjóður því að ekki hafi verið haft samband við kvartanda og að tafir hafi verið á málsmeðferð enda hafi málið verið í stöðugri skoðun hjá sjóðnum.

Við ákvörðun um hvort fella ætti ákvörðunina úr gildi hafi sjóðurinn rannsakað málið ítarlega, m.a. hafi starfsmenn Bílastæðasjóðs farið á vettvang og kannað aðstæður. Niðurstaða þeirra var að enginn vafi léki á því að kvartandi hefði gerst brotlegur við c-lið 1. mgr. 108. gr. umferðalaga nr. 50/1987 og að skiltið væri vel sýnilegt og í samræmi við kröfur sem gerðar verði til sýnileika slíkra skilta. Skilti veitingastaðarins Forréttabarsins hékk uppi við enda hússins en er nú farið. Engar heimildir eru fyrir því að það hafi verið tekið niður að ósk Bílastæðasjóðs eða í nokkrum tengslum við umferðarskiltið sem enn er á sama stað.

Umboðsmaður borgarbúa kannaði sjálfur aðstæður á vettvangi og getur fallist á þau sjónarmið Bílastæðasjóðs að umferðarmerkingar í umræddu tilviki séu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til umferðarmerkinga. Að því er varðar lögmæti álagningarinnar þá verður hún ekki borin undir æðra stjórnvald, sbr. 4. mgr. 108. gr. umferðarlaga, en af því leiðir að eina leiðin til að fá hana endurskoðaða er með því að skjóta ákvörðuninni til dómstóla. Umboðsmaður borgarbúa hefur því ekki forsendur til að fjalla nánar um þann þátt málsins.

 

II.

Bílastæðasjóður kveður álagningar sínar taka hækkunum skv. 5. og 6. mgr. 108. gr. umferðarlaga. Þannig tekur álagning sem dæmi 100% hækkun 28 dögum eftir að hún er lögð á bifreið og hún er enn ógreidd.

Bílastæðasjóður svaraði engu um það í bréfi sínu þann 10. febrúar hvernig fari um greiðslu innheimtukostnaðar og vaxta fari svo að mál sé ekki fellt niður. Aðeins sagði að ef andmæli væru samþykkt væri gjaldið fellt niður og umsækjandi fengi bréf eða tölvupóst þess efnis. Ef andmælum væri hafnað fengi umsækjandi sömuleiðis tilkynningu í pósti eða tölvupósti og um leið lækkaði gjaldið aftur í þá upphæð sem það stóð í þegar álagningunni var andmælt. Ekki kemur fram hvað verði um innheimtu- og vaxtakostnað í slíkum tilvikum. Í því samhengi vill umboðsmaður borgarbúa koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í greinargerð með frumvarpi er varð að stjórnsýslulögum er leiðbeiningarskyldan nánar útfærð með eftirfarandi hætti:

„Veita ber leiðbeiningar um það hvaða réttarreglur gilda á viðkomandi sviði, hvernig meðferð mála er venjulega hagað, hvaða gögn aðila ber að leggja fram, hversu langan tíma það tekur venjulega að afgreiða mál o.s.frv.“

Samkvæmt þessu eiga stjórnvöld meðal annars að veita aðilum upplýsingar um það hvernig meðferð mála er hagað. Séu slíkar upplýsingar veittar gefst aðilum kostur á að haga málum sínum á þann hátt sem best samrýmist hagsmunum þeirra meðan á meðferð málsins stendur og koma þannig í veg fyrir að tiltekin réttarúrræði, ef þau eru fyrir hendi, glatist.

Að framangreindu sögðu verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að Bílastæðasjóði beri að veita leiðbeiningar um þær réttarreglur sem gilda og á þann hátt sem best samrýmist hagsmunum borgarbúa og þeirra sem nýta sér þjónustu Bílastæðasjóðs, m.a. með því að leiðbeina um að greiða álagningu innan þriggja daga með fyrirvara. Það er einnig í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í áliti nr. 2510/1998 þar sem fjallað var um sambærilegt tilvik en þar sagði:

„Ég tel í ljósi þeirra réttarreglna sem hér koma til skoðunar og þá þess hagræðis sem fólst í þeirri tilhögun að hægt var að fá verulegan afslátt af álagðri sekt, ef hún væri greidd innan þriggja virkra daga, að bílastæðasjóði hefði verið rétt að skýra A frá því þegar hún leitaði til hans að meðferð málsins hjá sjóðnum myndi ekki breyta því að henni stæði aðeins til boða að greiða sektina með afslætti í þrjá virka daga frá álagningu hennar. Með því hefði A verið veitt raunhæft tækifæri til þess að gæta hagsmuna sinna og greiða umrædda sekt með afslætti og fyrirvara um síðari niðurstöðu málsins hjá Bílastæðasjóði Reykjavíkur.

[…]

Ég tek fram að ekki verður séð að það sé viðurhlutamikil krafa að aðila máls sé leiðbeint um þær réttarreglur sem til skoðunar koma og réttaráhrif þeirra enda hefði bílastæðasjóður, í því tilviki sem hér er til úrlausnar, hæglega getað fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni hvort sem er skriflega eða munnlega þegar A leitaði til sjóðsins og kvartaði yfir álagningu aukastöðugjaldsins.“

Í svarbréfi Bílastæðasjóðs við erindi umboðsmanns borgarbúa kemur aðeins fram að almennt sé umsækjendum bent á að þeir eigi þess kost að greiða gjald þrátt fyrir andmæli og fá það síðan endurgreitt ef fallist er á beiðni þeirra um niðurfellingu gjaldsins. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slíkar leiðbeiningar hafi verið veittar, en kvartandi kveðst hafa hringt vegna málsins þar sem henni var tjáð að farið yrði á staðinn og aðstæður kannaðar auk þess sem hún ætti ekki að taka innheimtubréf alvarlega.

Fyrir liggur að Bílastæðasjóður hefur sett sér verklag vegna óskar um endurupptöku ákvörðunar. Þar kemur m.a. fram í 1. gr. að heimilt sé að óska eftir endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðvunarbrotagjalds innan 28 daga frá dagsetningu álagningar. Almennur afgreiðslutími sé 2-4 vikur. Í 3. gr. reglnanna er kveðið á um að gögnum vegna máls sé hægt að skila inn með beiðni um endurupptöku á netfangið bilastaedasjodur@bilastaedasjodur.is, með faxi í númerið 411-3409 eða með almennum pósti innan 7 daga. Eftir það fari málið í vinnsluferli.

Í 8. gr. verklagsreglnanna segir eftirfarandi: „Þegar ósk um endurupptöku hefur borist tekur álagningin áfram lögbundnum hækkunum skv. umferðarlögum á meðan þau eru í vinnslu. Við afgreiðslu máls fellur gjaldið niður sé erindið samþykkt en sé erindinu hafnað fer gjaldið aftur í þá upphæð sem það stóð í þegar ósk um endurupptöku barst að því undanskildnu að staðgreiðsluafsláttur er einungis veittur ef greitt er innan þriggja virkra daga frá álagningu gjaldsins. Aðilum er bent á að þeir eiga þess kost að greiða gjaldið þrátt fyrir ósk um endurupptöku og fá það endurgreitt ef fallist er á beiðni þeirra um niðurfellingu gjaldsins.“.

Það er afstaða umboðsmanns borgarbúa að Bílastæðasjóður hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart borgarbúanum sem hafi valdið honum réttarspjöllum.

Umboðsmaður borgarbúa vill árétta framangreinda skyldu til að leiðbeina borgarbúum og beinir því til Bílastæðasjóðs að koma upp skýru verklagi sem tryggir að þeirri leiðbeiningaskyldu sé sinnt. Af leiðbeiningaskyldunni leiðir að Bílastæðasjóði er rétt og skylt að afhenda skráð verklag til þeirra aðila sem andmæla, hvort sem þeir gera það með skriflegum hætti, í gegnum síma, tölvupóst eða í gegnum rafræna gátt á heimasíðu Bílastæðasjóðs. Umboðsmaður borgarbúa beinir þeim tilmælum til sjóðsins að yfirfara verkferla með það að markmiði að tryggja flæði framangreindra upplýsinga til þeirra sem andmæla álögðum gjöldum hjá sjóðnum.

 

III.

Umboðsmaður Alþingis fylgdi áðurnefndu áliti sínu í máli nr. 2510/1998 eftir með bréfi til Reykjavíkurborgar þar sem óskað var upplýsinga um hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af áliti hans. Í svarbréfi borgarritara, dagsettu 21. apríl 2000, segir:

„Jafnskjótt og andmæli hafa verið skráð í innheimtukerfi stöðvunarbrotsgjalda er viðkomandi álagning „fryst“ þannig að engin bréf eða ítrekanir eru sendar út fyrr en niðurstaða er fengin og nýr frestur til greiðslu hefur verið gefinn. Þá er fólki ráðlagt að greiða með fyrirvara til að koma í veg fyrir alla hættu á misskilningi að þessu leyti.“

Í máli þessu liggur fyrir að á meðan Bílastæðasjóður hafði endurupptökubeiðni kvartanda til afgreiðslu héldu innheimtuaðgerðir vegna gjaldsins áfram. Samkvæmt svari Bílastæðasjóðs til umboðsmanns voru tvö ítrekunarbréf frá Bílastæðasjóði send kvartanda. Annað bréfið var sent í 12. ágúst 2013 og hitt um tveimur vikum síðar. Hinn 4. september 2013 var sú ákvörðun tilkynnt kvartanda að mál hennar hefði verið endurskoðað og að ekki yrði fallið frá álagningunni. Þá fékk kvartandi innheimtubréf frá Momentum en umboðsmanni er ekki kunnugt um hvaða dag það barst kvartanda.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að það verklag sem Bílastæðasjóður viðhafði á þeim tíma er framangreint mál umboðsmanns Alþingis var til umfjöllunar hafi verið notað við meðferð málsins og ekki liggur fyrir skráð verklag um innheimtuaðgerðir á meðan mál er til skoðunar hjá sjóðnum. Af eðli máls leiðir að borgarbúar og aðrir hafa réttmætar væntingar til þess að innheimtuaðgerðir fari ekki fram á meðan Bílastæðasjóður endurskoðar lögmæti álagningar. Sé ætlun sjóðsins að viðhafa það verklag að beiðni um endurupptöku máls fresti ekki innheimtuaðgerðum er rétt að sú aðferðafræði komi skýrt fram í þeim verklagsreglum sem kynntar eru borgarbúum sem óska eftir endurupptöku álagningar.

Umboðsmaður borgarbúa beinir þeim tilmælum til Bílastæðasjóðs að setja sér skýrt verklag um innheimtuferla er taki til þeirra tilvika þegar álagningu er andmælt og óskað eftir endurupptöku hennar. Aðeins þannig geta borgarbúarnir gert sér grein fyrir því hvort og þá hvaða réttaráhrif endurupptökubeiðni hefur gagnvart skyldu til greiðslu hins álagða gjalds enda kunna innheimtuaðgerðir að leiða af sér kostnað sem fellur á borgarbúann á meðan hann stendur í þeirri trú að ekki sé endanlega búið að kveða á um skyldu hans til að greiða gjaldið.

Máli þessu telst hér með lokið skv. 12. gr. b. samþykktar fyrir umboðsmann borgarbúa.