bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Mál umboðsmanns borgarbúa nr. 280/2014

Dagsetning álits: 
Mánudagur, mars 31, 2014

Mál umboðsmanns borgarbúa nr. 280/2014

A leitaði til umboðsmanns  borgarbúa með kvörtun um ákvörðun Bílastæðasjóðs að hafna endurnýjun á íbúakorti hans sem hann hafði áður fengið úthlutað á grundvelli 3. gr. auglýsingar frá 7. júní 2010 nr. 537/2010 um endurskoðaðar reglur um íbúakort í Reykjavík. Hafði  íbúinn fengið umrætt kort fyrir sömu bifreið árinu áður.
þann 10. desember 2013, barst borgarbúanum tölvupóstur frá Bílastæðasjóði þar sem umsókn hans um endurnýjun íbúakorts var hafnað. Greint var frá því í svari sjóðsins að ástæða höfnunarinnar væri sú að bifreiðin væri „þeirrar gerðar/stærðar“  sem samrýmdist ekki reglum um íbúakort“ enda væri bifreiðin skráð á fyrirtæki sem sendibifreið. Borgarbúanum var hvorki veittur andmælaréttur vegna ákvörðunarinnar eða upplýstur um kæruheimildir að öðru leyti, né var honum kynnt ákvæði gildandi reglna um íbúakort sem ákvörðun um höfnun umsóknar um endurnýjun byggðist á. Borgarbúinn sagðist einungis nota bílinn í einkaerindum og væri bifreiðin eigi stærri en aðrar bifreiðar sem lagt væru í götunni við heimili hans.
Niðurstaða umboðsmanns borgarbúa er sú að sá rökstuðningur sem Bílastæðasjóður gefur A vegna synjunar á útgáfu íbúakorts í samræmi við gildandi reglur um íbúakort, hafi ekki verið í samræmi við 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í svarbréfi Reykjavíkurborgar til umboðsmanns borgarbúa fylgir fyllri rökstuðningur fyrir ákvörðun um synjun á endurnýjun íbúakortsins en sá rökstuðningur hefði með réttu átt heima í upphaflegum rökstuðningi Reykjavíkurborgar til A.
Verklag Bílastæðasjóðs samkvæmt 3. gr. gildandi reglna um bílastæðakort um að hafna öllum umsóknum um íbúakort vegna bifreiða sem teljast til vöru- eða sendibifreiða samkvæmt opinberri skráningu er ekki í samræmi við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Allar bifreiðar geta eðli málsins samkvæmt fallið þarna undir, þar sem þær geta verið atvinnutæki viðkomandi eiganda.
Umboðsmaður borgarbúa beinir þannig þeim tilmælum til Bílastæðasjóðs að endurskoða verklag sitt þegar kemur að samþykkt og synjun umsókna um íbúakort. Er það von umboðsmanns að nýtt verklag verði samið með lögfest og ólögfest ákvæði stjórnsýslulaga að leiðarljósi og þau meginsjónarmið sem rakin eru í áliti þessu.