bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Húsnæðisvandi í Reykjavík: Einstaklingar í vanskilum við Félagsbústaði hf. geti fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði

  • Ráðhús

Umboðsmanni borgarbúa hefur á síðustu misserum borist fjöldi erinda frá borgarbúum sem ekki geta fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði vegna uppsafnaðra vanskila við Félagsbústaði. Í framhaldi þess hóf umboðsmaður rannsókn á ástæðum þessa vanda og kom í ljós að þegar einstaklingur er í vanskilum við Félagsbústaði vegna eldri skuldar, kemur sá hinn sami ekki til álita við úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Nú hefur umboðsmaður borgarbúa sent frá sér álit þar sem hann kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að slíkt verklag samræmist ekki gildandi lögum og reglum sem gilda um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis.

Umboðsmaður borgarbúa hefur fengið í hendur samkomulag velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. vegna samstarfs aðila er varðar félagslegar leiguíbúðir í Reykjavíkurborg í eigu eða umsýslu Félagsbústaða hf. þar sem kveðið er á um að einstaklingar sem eru í vanskilum við Félagsbústaði skuli ekki koma til álita við frumúthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Reykjavíkurborg hefur sett sér reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur frá 5. mars 2015. Hins vegar er þar hvergi kveðið á um að umsækjandi þurfi að vera skuldlaus við Félagsbústaði hf. eða hafa samið um greiðslu skuldarinnar.

Helsta markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Það hefur verið staðfest í laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá segir í 12. gr. sömu laga að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum.

Þess ber þó að geta að skuldastaða umsækjanda við Félagsbústaði hefur samkvæmt gildandi reglum áhrif á möguleika til hans til flutnings á milli íbúða. Í 3. mgr. 19. gr. er kveðið á um að sé leigjandi í vanskilum með leigugreiðslur við Félagsbústaði hf. komi umsókn hans um milliflutning aðeins til skoðunar að leigjandi hafi gert full skil á vangoldnum leigugreiðslum eða að um skuldina hafi verið samið. Að öðru leyti kveða reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur ekki á um skuldastöðu umsækjanda við Félagsbústaði hf.

Gildandi fyrirkomulag ekki í samræmi við lög og reglur
Samkvæmt lagaáskilnaðarreglunni skulu stjórnvöld ekki taka ákvarðanir sem séu íþyngjandi fyrir borgarana án þess að fyrir því sé skýr lagaheimild. Stjórnvaldsfyrirmæli verða því að styðjast við sett lög og mega aldrei ganga gegn þeim.

Í birtum reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur frá 5. mars 2015 er ekki kveðið á um að vanskil við Félagsbústaði hf. hafi áhrif á umsókn einstaklinga um félagslegt húsnæði og möguleika þeirra til að koma til álita við úthlutun, heldur einungis þegar um ræðir milliflutning. Umboðsmaður getur ekki fallist á með velferðarsviði að einstaklingar í vanskilum við Félagsbústaði hf. skuli hljóta sambærilega meðferð í báðum tilfellum á grundvelli jafnræðissjónarmiða. Að mati umboðsmanns verður ekki talið að eins sé ástatt um þá einstaklinga sem óska eftir milliflutningi og þá sem bíða eftir úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, enda leiðir af eðli máls að margir í hóp þeirra síðargreindu búa við alvarlegt og oft langvarandi húsnæðisleysi. Í ljósi þess að synjun á úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis er í eðli sínu íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun verður að gagnálykta að slík sjónarmið skuli ekki koma til álita þegar um frumúthlutun er að ræða.

Þá er það mat umboðsmanns borgarbúa að velferðarsvið geti ekki byggt íþyngjandi ákvörðun af því tagi sem um ræðir á því samkomulagi sem gert var á milli velferðarsviðs og Félagsbústaða hf. þann 19. nóvember 2014 og byggir á eldri fyrirmynd, enda stenst slíkt ekki grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar um að byggja verði íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun á settum lögum. Umrætt samkomulag er ekki aðgengilegt almenningi á vefsvæði borgarinnar.

Ólögmæt sjónarmið lögð til grundvallar
Það er niðurstaða umboðsmanns borgarbúa að Reykjavíkurborg hafi lagt ólögmæt sjónarmið til grundvallar þeirri ákvörðun sinni að synja borgarbúanum um tilnefningu til úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis á 86. fundi úthlutunarteymis sem byggð voru ýmist einvörðungu eða að hluta á fyrirliggjandi vanskilum hennar gagnvart Félagsbústöðum hf. Er það álit umboðsmanns borgarbúa að það skilyrði sem velferðarsvið setti borgarbúanum fyrir því að njóta möguleika á að fá úthlutað félagslegu leiguhúsnæði, þ.e. að vera ekki í skuld við Félagsbústaði hf., hafi ekki verið í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins enda byggir sú skilyrðing hvorki á heimild í lögum né reglum settum samkvæmt þeim, svo sem reglum um félagslegt leiguhúsnæði og húsaleigubætur í Reykjavík.

Umboðsmaður borgarbúa hefur því beint þeim tilmælum til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að endurskoða og tryggja fyrirsjáanlegt verklag þegar kemur að úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis og allar reglur þar að lútandi séu aðgengilegar almenningi og birtar með tilhlýðilegum hætti á vefsvæði Reykjavíkurborgar.