

Þú ert hér
Umboðsmaður borgarbúa gerir athugasemdir við málsmeðferð vegna leigu á Iðnó
Umboðsmaður borgarbúa telur, í áliti sínu frá 16. júlí sl., að málsmeðferð menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar við ákvörðun um útleigu á Iðnó hafi verið annmörkum háð. Telur umboðsmaður að menningar- og ferðamálasvið hafi ekki sýnt fram á að fullnægjandi samanburður hafi verið gerður á þeim umsækjendum sem sóttust eftir því að hafa umsjón með rekstri og starfsemi Iðnó. Auk þess telur umboðsmaður í áliti sínu skorta á að fullnægjandi rökstuðningur hafi búið að baki endanlega ákvörðunar um útleigu á Iðnó, enda hafi þeir matsþættir sem lagðir voru til grundvallar samkvæmt auglýsingu um fyrirhugaða leigu á Iðnó ekki verið skilgreindir eins og kostur var. Þannig hafi verið óljóst hvaða atriði það voru sem endanlega réðu úrslitum.
Með hliðsjón af þessu hefur umboðsmaður í áliti sínu komið á framfæri tilmælum til menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar um að huga að þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu í framtíðinni.
Álit umboðsmanns í heild sinni er að finna hér á vefsíðunni.