bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Umboðsmaður borgarbúa sendir velferðarráði ábendingar vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks

  • Ráðhús

Umboðsmaður borgarbúa sendi velferðarráði Reykjavíkurborgar erindi varðandi Ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem tekið var fyrir á fundi ráðsins þann 22. janúar sl.

Umboðsmaður lagði fram athugasemdir við þrjá þætti í reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík.
Í fyrsta lagi hvað varðar 60 ferða hámark á mánuði sem umboðsmaður telur ekki samræmast lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 þar sem réttur fatlaðs fólks á þjónustustofnanir eigi að vera ótakmarkaður. Í öðru lagi gerði umboðsmaður athugasemdir hvað varðar gjaldtöku ferða umfram 60 ferða hámark, en reglurnar kveða á um að hægt sé að sækja um að fá allt að 80 ferðir á mánuði en þá sé tekið 1100 kr. gjald fyrir þær umframferðir frá 60 ferða hámarkinu. Umboðsmaður borgarbúa taldi þessa gjaldtöku ekki vera í samræmi við gjaldtökuheimild í lögum um málefni fatlaðs fólks. Í þriðja lagi gerði umboðsmaður borgarbúa athugasemd við það að reglurnar útilokuðu að meginstefnu til þá einstaklinga sem fengið hafa styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun ríkisins og þá sem njóta bensínstyrks en samkvæmt reglunum njóta þeir ekki rétt til ferðaþjónustu. Þeim er þó heimilt að sækja um sérstaka undanþágu vegna sérstakra aðstæðna, svo sem færðar, tímabundinna veikinda eða bilunar á bifreið sem þeir hafa til umráða. Umboðsmaður borgarbúa benti á að ekki væri að finna skýra heimild í lögum til þess að útiloka þann hóp frá þjónustunni. Þannig geti staðan verið sú að tveir sambærilegir einstaklingar sem báðir eiga bifreið, annar er betur settur efnahagslega en hinn og þarf ekki að nýta sér lögbundinn rétt til kaupa á bifreið eða bensínstyrks hefur óhindraðan rétt til ferðaþjónustunnar. Taldi umboðsmaður borgarbúa að þarna gæti verið um mismunun að ræða og beindi því til velferðarráðs að endurskoða ákvæðið.

Á fundi velferðarráðs var samþykkt breyting á gjaldskrá um ferðaþjónustu fatlaðs fólks og 1100 króna viðbótargjald fellt niður. Velferðarráð ákvað einnig að taka málefni ferðaþjónustunnar upp aftur á næsta fundi sínum þann 5. febrúar með hliðsjón af ábendingum umboðsmanns borgarbúa.