bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Hvað gerist næst?

Svona meðhöndlum við erindi frá borgarbúum

Þau erindi sem berast umboðsmanni borgarbúa eru fjölbreytt. Umboðsmaður tekur á móti einstaklingum, fyrirtækjum, hagsmunaaðilum og öðrum sem eru ósáttir við einhverja þá þætti er snúa að stjórnsýslu, þjónustu og starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Hann hlustar og greinir umkvörtunarefnin og ábendingar og metur með hvaða hætti hann getur komið til aðstoðar við vernd þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi. Eftir að umboðsmanni berst erindi frá aðila skoðar hann málið með tilliti til þess hvort það eigi undir starfsemi umboðsmanns. Ef málið heyrir ekki undir umboðsmann veitir hann leiðbeiningar um hvert viðkomandi aðili getur leitað með mál sitt. Dæmi um þetta er þegar aðilar vilja bera fram erindi sem varðar Orkuveitu Reykjavíkur, SORPU bs. eða Strætó bs. Umboðsmaður fæst aðeins við mál sem varðar Reykjavíkurborg með beinum hætti, þ.m.t. Félagsbústaði hf. og Bílastæðasjóð Reykjavíkur.

Falli málið að verkefnum umboðsmanns tekur hann málið til frekari skoðunar. Yfirleitt býður umboðsmaður viðkomandi aðila að koma til fundar við sig til að fara yfir málið og leggja fram til skoðunar þau gögn sem viðkomandi hefur undir höndum. Í kjölfarið getur umboðsmaður kallað eftir gögnum frá Reykjavíkurborg.

 

Óformlegar fyrirspurnir og formlegar rannsóknir

Eftir að umboðsmaður hefur aflað allra gagna metur hann hvaða farvegur hentar málinu best. Umboðsmaður reynir að leysa úr erindum þeirra sem til hans leita með óformlegum og skjótum hætti. Í því felst að umboðsmaður býður sáttamiðlun, sé líklegt að hún beri árangur í málinu, en hefur að öðrum kosti samband við þann starfsmann Reykjavíkurborgar sem ber ábyrgð á vinnslu málsins, hvort heldur er með símtali, tölvupósti eða stuttu bréfi, kannar afstöðu hans og leggur til úrlausn. Í sumum tilvikum koma fram skýringar og gögn sem varpa ljósi á málið og gerir það að verkum að ekki er þörf á frekari úrlausn þess. Í öðrum tilvikum leiðréttir Reykjavíkurborg mistök eða það sem aflögu fór og í enn öðrum málum er hægt að kæra ákvörðun til kærunefndar, úrskurðanefndar eða viðkomandi ráðuneytis. Í þeim tilvikum aðstoðar umboðsmaður viðkomandi aðila við að setja mál í þann farveg.

 

Skili framangreind inngrip ekki árangri getur umboðsmaður hafið formlega rannsókn á þeirri háttsemi Reykjavíkurborgar sem erindi borgarbúans lýtur að. Þá rannsakar umboðsmaður málið og skilar af sér niðurstöðu, yfirleitt í formi álits, sem inniheldur greiningu þess og tillögur að úrbótum. Reykjavíkurborg er ekki bundin af slíku áliti, frekari en álitum annarra umboðsmanna, en telji hún ekki ástæðu til að fara að álitinu ber henni að tilkynna um þá afstöðu og rökstyðja hana með fullnægjandi hætti. Slík tilkynning er í framhaldinu lögð fram á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Umboðsmaður fylgir eftir álitum sínum og tryggir að Reykjavíkurborg bregðist við í samræmi við niðurstöður hans, tilmæli og ábendingar.verkferlarjpg.jpg