bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Um embættið

Tilurð og saga:

Hugmyndir um að setja á stofn sérstakan umboðsmann fyrir borgarbúa hafa komið fram reglulega innan borgarkerfisins frá árinu 1994. Slík embætti hafa verið sett á stofn í fjölda sveitarfélaga víða um heiminn og eiga það sameiginlegt að hafa það að meginmarkmiði að standa vörð um réttindi íbúa gagnvart borg eða bæ, hvetja til umbóta og sporna gegn mismunun.

Á fundi borgarstjórnar hinn 22. maí 2012 var lögð fram tillaga um stofnun embætti umboðsmanns borgarbúa. Tillagan var svohljóðandi:

„Lagt til að stofnað verði embætti „umboðsmanns borgarbúa“ er leiðbeini íbúum í samskiptum þeirra við embætti og stofnanir borgarinnar og veiti þeim ráðgjöf um rétt sinn. Umboðsmaður borgarbúa skal hafa sjálfstæða stöðu, heyra stjórnskipulega undir forsætisnefnd og vera staðsettur á skrifstofu borgarstjórnar.“

Tillögunni fylgdi greinargerð þar sem hlutverk embættisins er lauslega skilgreint. Í greinargerðinni er kveðið á um að umboðsmaður borgarbúa skuli leiðbeina borgarbúum og fyrirtækjum sem telja að á sér hafi verið brotið við meðferð mála hjá Reykjavíkurborg. Umboðsmaðurinn skuli jafnframt veita ráðgjöf um endurupptöku og/eða kæruleiðir vegna þeirra mála sem til hans koma. Hann skuli vera til aðstoðar fyrir íbúa sem eru ósáttir við meðferð mála hjá Reykjavíkurborg. Borgarar geti leitað eftir aðstoð við að leggja mál sitt að nýju fyrir stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, óskað eftir endurupptöku og/eða fengið leiðbeiningar um kærurétt. Einnig skuli vera hægt að leita til umboðsmannsins ef borgarar eru með almennar kvartanir eða ábendingar um þjónustustig hjá Reykjavíkurborg, ef skýringar vantar á innihaldi stjórnvaldsákvörðunar og leiðbeiningar um næstu skref í málinu. Umboðsmaðurinn skuli einnig taka við ábendingum og hugmyndum um það hvernig má bæta þjónustu Reykjavíkurborgar. Þá geti umboðsmaðurinn einnig tekið mál til skoðunar að eigin frumkvæði þegar ástæða er til og geti framkvæmt almennar kannanir á stjórnsýslu borgarinnar.

Tillagan var samþykkt og í kjölfarið var unnin starfslýsing fyrir umboðsmann. Starfið var auglýst laust til umsóknar í janúar 2013 og hinn 1. mars 2013 tók Ingi B. Poulsen, lögmaður, við starfi umboðsmanns borgarbúa. Embætti umboðsmanns opnaði skrifstofu sína 2. maí 2013 sem tilraunaverkefni til 18 mánaða.

Umboðsmaður skilaði forsætisnefnd áfangaskýrslu að þeim 18 mánuðum liðnum sem fór til umfjöllunar í borgarstjórn. Á fundi borgarstjórnar 16. september 2014 var svohljóðandi tillaga samþykkt:

„Lagt er til að tilraunaverkefni um umboðsmann borgarbúa verði framlengt um 18 mánuði. Á þeim tíma er forsætisnefnd falið að vinna að nánari skilgreiningu fyrir starfsemi umboðsmanns og gera tillögu að framtíð embættisins með vísan til umfjöllunar í áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa.“

Forsætisnefnd vann að nýrri tillögu að stjórnskipulegri stöðu og samstarfi á sviði eftirlits með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar á tímabilinu og var hún samþykkt á fundi nefndarinnar 3. apríl 2017. Tillagan er svohljóðandi:

Lagt er til að festa í sessi embætti umboðsmanns borgarbúa, sem sett var á laggirnar í tilraunaskyni með samþykkt borgarstjórnar 22. maí 2012 og framlengt árið 2014. Umboðsmaður borgarbúa verði sérstök eining í skipuriti Reykjavíkurborgar og með sjálfstæðan fjárhag. Umboðsmaður heyri stjórnskipulega undir stjórnkerfis- og lýðræðisráð og skili ráðinu skýrslu árlega um starfsemi sína á liðnu almanaksári, eigi síðar en 15. september ár hvert. Umboðsmaður skal ráðinn til starfa af borgarráði og er sjálfstæður í störfum sínum gagnvart allri stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og óháður fyrirmælum um einstök mál. Endurskoða skal samþykkt fyrir umboðsmann borgarbúa í samræmi við tillögu þessa en einnig til að opna fyrir aukið samstarf umboðsmanns borgarbúa og innri endurskoðunar. Jafnframt skal endurskoða samþykkt stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, starfslýsingu umboðsmanns borgarbúa og setja verklagsreglur um samskipti umboðsmanns við stjórnkerfis- og lýðræðisráð til að tryggja óhæði hans gagnvart ráðinu og skilgreina hvernig samskiptum hans við ráðið skuli háttað. Skal þeirri vinnu lokið fyrir 1. september nk.

Í tillögunni fólst mikilvæg breyting á stöðu embættisins bæði hvað varðar stöðu þess innan stjórnskipunar Reykjavíkurborgar og raunverulegt sjálfstæði embættisins. Á sama tíma var unnið nýtt skipurit fyrir Reykjavíkurborg. Fram eftir árinu 2017 var unnið að breytingum á samþykktum stjórnkerfis- og lýðræðisráðs og umboðsmanns borgarbúa og gerð verklagsreglna á milli ráðsins og umboðsmanns.

skipuritjpg.jpg

Embætti í þróun

Frá þeim tíma er skrifstofa umboðsmanns opnaði hefur embættið verið í stöðugri þróun enda um að ræða nýmæli í íslenskri stjórnsýslu. Í upphafi voru hugmyndir um starfsemi og útfærslu embættisins tiltölulega opnar en grundvallarhugsjónin sú að aðstoða þá aðila sem eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg við að standa vörð um réttindi sín og efla eftirlit með stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar með það að markmiði að stuðla að umbótum. Með því að setja á stofn sérstakt embætti sem hefði það hlutverk að vera óháður og sjálfstæður ráðgjafi og réttarvörður borgarbúa mætti opna nýja gátt milli þeirra og borgarkerfisins og nýta þannig upplifun borgaranna af þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar til að koma auga á vankanta, brot og mismunun innan Reykjavíkurborgar. Umboðsmaður gæti þá aðstoðað borgarana við að standa vörð um sín réttindi, tryggt jafnræði og á sama tíma eflt innra eftirlit og innleitt umbætur í borgarkerfið. Embættið er því í eðli sínu umbótaverkefni fyrir stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar og hefur það að markmiði að efla grunnstoðir stjórnsýslunnar. Embættið er jafnvel hluti af innra eftirliti Reykjavíkurborgar og sem slíkt hefur það þann tilgang að efla tiltrú almennings á stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar.

 

sagajpg_0.jpg

Verkferlar embættisins hafa þróast talsvert frá fyrsta degi. Í upphafi var áhersla lögð á formlegar rannsóknir mála en í dag velur umboðsmaður alltaf sem fyrsta kost að stíga með óformlegum hætti inn í mál. Með því vinnur umboðsmaður að því markmiði að koma á úrlausnum í samræmi við undirliggjandi hagsmuni með skjótvirkum hætti. Dugi óformleg aðkoma ekki beitir umboðsmaður formlegri leiðum til úrlausnar máls. Hér má lesa meira um starfshætti umboðsmanns: