bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Verkefni umboðsmanns

 

Verkefnum umboðsmanns má skipta í fjóra flokka:

verkefni.jpg

  1. Borgaramál – Einstaklingar og lögaðilar leita til umboðsmanns borgarbúa með sín mál. Þau eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og fer umboðsmaður ólíkar leiðir til að leysa úr þeim.
  2. Frumkvæðismál – Umboðsmaður tekur mál upp að eigin frumkvæði sem snýr að almennum þáttum innan stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar eða einstökum aðilum. Umboðsmaður getur farið í óboðaðar vettvangsferðir á starfsstaði Reykjavíkurborgar.
  3. Ábendingar starfsmanna – Starfsmenn geta komið upplýsingum til umboðsmanns borgarbúa um alvarlega misbresti, gróf brot og vankanta í stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar sem umboðsmaður tekur þá til rannsóknar. Jafnframt geta starfsmenn komið að ábendingum um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af málum.
  4. Fræðsla og ráðgjöf innan og utan kerfis – Umboðsmaður borgarbúa sinnir ráðgjöf innan borgarkerfisins og utan þess. Þannig geta starfsmenn og aðrir leitað til umboðsmanns og óskað eftir almennri ráðgjöf um hvað það sem snýr að verkefnum umboðsmanns. Ráðgjöfin miðar að því að innleiða umbætur í stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar. Jafnframt heldur umboðsmaður fjölda erinda á ári hverju um stjórnsýslurétt, upplýsingarétt og hvað annað sem starfsmenn óska eftir því að tekið verði til umfjöllunar hverju sinni.

 

Borgaramál:

Einstaklingar, lögmenn, hagsmunafélög, fyrirtæki og allir aðrir þeir sem telja að Reykjavíkurborg hafi brotið gegn þeim með einum eða öðrum hætti geta leitað til umboðsmanns borgarbúa og fengið þar óháða, faglega og sjálfstæða ráðgjöf. Málin eru fjölbreytt og umboðsmaður beitir ólíkum leiðum til úrlausnar hverju sinni. Umboðsmaður greinir réttarstöðu viðkomandi út frá frásögn þeirra og undirliggjandi gögnum, veitir lögfræðilega ráðgjöf og leiðbeiningar í viðkomandi máli. Í sumum tilvikum dugar að leiða aðila málsins og viðkomandi starfsmann Reykjavíkurborgar saman, leysa ágreining með sáttamiðlun eða öðrum sambærilegum leiðum með það að markmiði að koma á úrlausn í málinu. Í öðrum tilvikum kann að vera að skilyrði fyrir endurupptöku málsins séu fyrir hendi og þá aðstoðar umboðsmaður við að útbúa slíka endurupptökubeiðni. Í enn öðrum málum kann að vera hægt að skjóta tilgreindri ákvörðun til æðra stjórnvalds, svo sem kærunefndar, úrskurðarnefndar eða ráðuneytis og þá aðstoðar umboðsmaður við að útbúa stjórnsýslukæru. Verði ekki úr málinu leyst með óformlegum og skjótvirkum hætti getur umboðsmaður rannsakað málið og gefið út álit með tilmælum um úrbætur. Álitin eru ekki bindandi en ætli Reykjavíkurborg ekki að fylgja áliti umboðsmanns verður hún að tilkynna umboðsmanni um þá ákvörðun formlega og rökstyðja afstöðu sína.

 

einstaklings.jpg

Frumkvæðisrannsóknir

Umboðsmaður borgarbúa getur tekið upp mál að eigin frumkvæði. Er þar bæði um að ræða málefni einstakra borgara og mál sem eru almenns eðlis. Þá hefur umboðsmaður jafnframt heimild til að fara í vettvangsathuganir, t.d. í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar sem grunur er um að uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til þess hverju sinni, svo sem um aðgengi, hollustuhætti og aðbúnað. Borgarstjórn og stjórnkerfis- og lýðræðisráð geta jafnframt óskað eftir því að umboðsmaður taki upp tilgreint mál að eigin frumkvæði. Frumkvæðisrannsóknum lýkur með útgáfu álits þar sem fram kemur niðurstaða umboðsmanns ásamt tilmælum um úrbætur og aðrar ábendingar.

 

frumkvaedis.jpg

Ábendingar frá starfsmönnum, viðsemjendum og öðrum

Starfsmenn Reykjavíkurborgar geta leitað til umboðsmanns borgarbúa með einstök mál. Annars vegar er um að ræða mál sem snúa að réttarbrotum, vanrækslu eða mistökum í stjórnsýslu og/eða þjónustu Reykjavíkurborgar. Jafnframt geta starfsmenn komið á framfæri ábendingum um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af einstaka málum. Markmiðið er að koma í veg fyrir spillingu og ógagnsæi í störfum kjörinna fulltrúa. Starfsmenn njóta nafnleyndar og friðhelgi í þeim tilvikum þegar þeir koma á framfæri upplýsingum við umboðsmann.

 

starfsmenn.jpg

Fræðsla og almenn ráðgjöf

Allir starfsmenn Reykjavíkurborgar, viðsemjendur og samstarfsaðilar borgarinnar og aðrir geta leitað til umboðsmanns borgarbúa eftir ráðgjöf. Umboðsmaður heldur jafnframt reglulega erindi og stundar kennslu innan Reykjavíkurborgar með það að markmiði að styrkja þekkingu og kunnáttu starfsmanna og annarra sem þjónusta borgarbúa með einum eða öðrum hætti. Þeir sem óska eftir því að umboðsmaður haldi erindi um embættið eða hvað eina annað sem snýr að umbótum í stjórnsýslu og þjónustu Reykjavíkurborgar geta komið þeirri ósk á framfæri við umboðsmann í gegnum netfangið umbodsmadur@reykjavik.is.

 

fraedsla.jpg