bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Hvað er æðra stjórnvald?

Ákvarðanir sem borgaryfirvöld taka í skjóli opinbers valds er oft hægt að fá endurskoðaðar, ýmist af borgaryfirvöldum sjálfum eða öðrum stjórnvöldum. Er þá oft talað um að ákvörðun sé skotið til æðra settra stjórnvalda. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar Reykjavíkurborg neitar að veita aðgang að upplýsingum úr gagnagrunni sínum þá má skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, skjóta má ákvörðunum um tiltekna þætti í framkvæmd útboða til kærunefndar útboðsmála, úrskurðum og einstökum ákvörðunum barnaverndarnefndar Reykjavíkur má skjóta til kærunefndar barnaverndarmála og svo mætti lengi telja. Þessi æðra settu stjórnvöld eru í öllum tilvikum fjölskipuð stjórnvöld, þ.e. fleiri en einn einstaklingur situr í hverri nefnd og í flestum tilvikum eru niðurstöður bindandi fyrir borgarana.
 
Innan Reykjavíkurborgar eru einnig til æðra sett stjórnvöld sem geta endurskoðað tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið innan borgarkerfisins. Sem dæmi má nefna að innkauparáð skal taka fyrir og afgreiða þær kvartanir og ábendingar sem ráðinu berast frá bjóðendum eða seljendum vöru, verka og þjónustu, enda heyri málið ekki undir kærunefnd útboðsmála, ákvörðunum starfsmanna velferðarsviðs og þjónustumiðstöðva í einstaklingsmálum verður skotið til áfrýjunarnefndar velferðarráðs og svo mætti áfram telja.
 
Umboðsmaður borgarbúa aðstoðar þá aðila sem telja á rétti sínum brotið við að leita leiða til að fá ákvarðanatöku innan borgarkerfisins endurskoðaða. Umboðsmaðurinn er hins vegar ekki æðra sett stjórnvald í skilningi laga og getur ekki með bindandi hætti fellt úr gildi, staðfest eða breytt ákvörðunum Reykjavíkurborgar.