bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Hvað er málsmeðferð?

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 eru sett í þeim tilgangi að tryggja sem best réttaröryggi manna í samskiptum við hið opinbera. Lögin fela í sér að borgurunum eru tryggð ákveðin réttindi í samskiptum sínum við stjórnvöld og stjórnvöldum er að sama skapi settur ákveðinn rammi um hvernig standa skuli að stjórnvaldsákvörðun. Löggjafinn hefur því sett ákveðnar reglur um þá málsmeðferð sem borgarbúar mega gera ráð fyrir að eigi sér stað þegar þeir eiga í samskiptum við hið opinbera, þ.m.t. sveitarfélög. Þegar borgarbúar sækja þjónustu til Reykjavíkurborgar eða þegar þeir þurfa að þola bein afskipti borgarkrefisins, t.d. barnaverndarnefndar, eiga þeir kröfu um að málsmeðferð fari fram með ákveðnum hætti. Í þessu tilliti má nefna nokkrar meginreglur stjórnsýsluréttarins:
 
Málshraðaregla stjórnsýslulaga felur það í sér að taka skal ákvarðanir eins fljótt og unnt er en stjórnvöldum er óheimilt að draga á langinn að afgreiða mál (9. gr.).
 
Rannsóknarregla stjórnsýslulaga kveður á um að mál skuli vera nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun í því. Á stjórnvöld er því lögð ákveðin skylda að kalla eftir upplýsingum og gögnum áður en ákvörðun er tekin (10. gr.).
 
Jafnræðisregla stjórnsýslulaga kveður á um að afgreiða skuli sambærileg mál með sambærilegum hætti, að gæta skuli samræmis og óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggjast á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum (11. gr.).
 
Meðalhófsregla stjórnsýslulaga kveður á um að þegar íþyngjandi ákvörðun er tekin skuli beita vægasta úrræði sem völ er á og er nægjanlegt til að ná því markmiði sem er að stefnt (12. gr.).
 
Andmælaregla stjórnsýslulaga kveður á um að stjórnvaldi skuli að jafnaði gefa aðilum máls kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin. Í þessu felst að aðilar máls geti komið á framfæri athugasemdum sínum eða sjónarmiðum varðandi það sem skiptir máli (13. gr.).
 
Ennfremur er kveðið á um upplýsingarétt aðila máls að skjölum og gögnum sem málið varða (15. gr.) auk þess sem aðilar máls eiga rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðunum stjórnvalds (21. gr.).
 
Fyrir utan þær reglur um málsmeðferð sem fram koma í stjórnsýslulögum og öðrum lögum hefur Reykjavíkurborg sett sér verklagsreglur í fjölmörgum málaflokkum sem einnig hafa þýðingu við mat á því hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
 
Umboðsmaður borgarbúa aðstoðar borgarbúa við að vega og meta hvort málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið í samræmi við þær kröfur sem stjórnsýslulög og önnur lög og reglur setja um málsmeðferð.