bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Hvað er mismunun?

Jafnræðisreglan eða bann við mismunun er ein grunnhugmynd mannréttinda. Jafnræðisregluna að finna í helstu mannréttindasamningum, í 65. grein stjórnarskrárinnar og er grundvallarregla í löggjöf Evrópusambandsins.
 

Jafnræðisreglan kveður á um að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli tiltekinna eiginleika eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Hugtökin jafnrétti og mismunun eru nátengd en það kallast mismunun þegar brotið er gegn jafnræðisreglunni. Að mismuna felur í sér að koma með ólíkum hætti fram við einstaklinga sem eru í sömu stöðu á grundvelli ákveðinna eiginleika á borð við kyn, uppruna, fötlun, heilsufar, kynhneigð, aldur, trúar- og stjórnmálaskoðanir. Mismunun á sér oft stað vegna fordóma sem byggðir eru á staðalímyndum* um ákveðna hópa.
 
Bann við mismunun krefst þess að sambærileg tilvik fái sömu meðferð. Okkar eigin fordómar mega ekki verða til þess að við komum ólíkt fram við einstaklinga í sömu stöðu.
 
Mismunandi meðferð svipaðra tilvika brýtur ekki alltaf gegn jafnræðisreglunni. Það þarf hins vegar að sýna fram á að mismununin sé réttmæt og að málefnalegar ástæður liggi að baki.
 
Til dæmis geta starfskröfur fyrir tilteknar starfsgreinar útilokað ýmsa hópa og einstaklinga frá því að sækja um starf. Þrátt fyrir að mannréttindastefna Reykjavíkurborgar kveði á um að atvinnuauglýsingar skuli vera kynhlutlausar þykir það ekki vera mismunun að auglýsa sérstaklega eftir kvenkyns baðverði í kvennaklefa og öfugt.
 
Aðrar ástæður, sem teljast málefnalegar, eru sértækar aðgerðir með vísan til jafnréttislöggjafar, þegar sérstakar ráðstafanir eru gerðar vegna fólks með fötlun og ákveðnar undantekningar sem tengjast aldri. Það er því ekki mismunun þegar málefnalegar ástæður liggja að baki þess að svipuð tilvik fái ólíka meðferð.
 
*(Staðalímyndir eru fyrirfram ákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópi eða stétt innan samfélagsins, eins og hvernig það á að hegða sér og hvaða störf eru við hæfi þess).
 

BEIN MISMUNUN
 
Bein mismunun telst vera þegar ómálefnalegar eða ólögmætar ástæður liggja að baki mismununinni. Einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar vegna kyns, kynhneigðar, fötlunar, aldurs, heilsufars, trúar- og stjórnmálaskoðana eða annarrar stöðu.
 
Dæmi um beina mismunun er þegar hæfur umsækjandi, sem jafnframt er blindur, er ekki tekinn til greina við ráðningu í skrifstofustarf þar sem vinnuveitandi gerir ráð fyrir að blindir séu ekki jafnfærir á tölvur og þeir sem sjá.
 
Dæmi um beina mismunun vegna aldurs: Starfsmanni er tjáð að hann fái ekki að sækja símenntun vegna þess að hann fari brátt á eftirlaun.
 

ÓBEIN MISMUNUN
 
Óbein mismunun á sér stað þegar ráðstafanir, skilyrði eða viðmið sem virðast hlutlaus eru tilteknum hópi óhagstæðari í samanburði við aðra. Það telst hins vegar ekki vera óbein mismunun ef hægt er að rökstyðja ráðstafanirnar sem gerðar eru, skilyrðin sem eru sett eða viðmiðin á hlutlausan hátt og þær miða að lögmætu markmiði.
 
Dæmi um óbeina mismunun: Nyamko fer í sund. Hún klæðir sig í sundföt, fer í sturtu og gerir sig líklega til að stinga sér í laugina. Hún er þá stoppuð af baðverði sem bendir henni á að í sundlaugum borgarinnar eigi sundgestir að þvo sér vandlega án sundfata áður en þeir fara í laugina. Nyamko segir að sökum trúarskoðana sinna þá geti hún ekki afklætt sig fyrir framan aðra. Baðvörður segir að hún megi ekki fara í laugina án þess að þvo sér án sundfata. Hún biður þá um aðgang að aðstöðu þar sem hægt sé að þvo sér í lokuðu rými. Í þessari sundlaug er slík aðstaða ekki í boði og því kemst Nyamko ekki í sund.
 

FJÖLÞÆTT MISMUNUN
 
Fjölþætt mismunun á sér stað þegar fólk verður fyrir mismunun á grundvelli tveggja eða fleiri þátta.
 
Dæmi um fjölþætta mismunun: Karlmaður, sem einnig er múslimi, er hæfasti einstaklingurinn í hópi umsækjenda í starfi með börnum hjá borginni. Hann fær ekki stöðuna og leggur fram kvörtun. Yfirmaðurinn á starfsstaðnum harðneitar því að mismunun hafi átt sér stað og bendir á að á vinnustaðnum starfi bæði karlmaður og múslímsk kona. Þegar málið er skoðað nánar þykir þó ljóst að mismunum hafi átt sér stað á grundvelli þess að maðurinn var bæði karlkyns og múslimi.