bakgrunnur toppur
bakgrunnur botn

Þú ert hér

Fróðleikur

Hvað er endurupptaka?
Hvað er stjórnvaldsákvörðun?
Hvað er málsmeðferð?
Hvað er mismunun?
Hvað er æðra stjórnvald?


Hvað er endurupptaka?

Samkvæmt stjórnsýslulögum á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Telji aðili að framangreindar aðstæður eigi við um mál sitt getur hann því óskað eftir endurupptöku þess og skal slíkum beiðnum beint til borgarráðs. Sjá nánar um endurupptöku mála í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. um tímafresti.


Hvað er stjórnvaldsákvörðun?

Í bókinni Stjórnsýslulög – skýringarrit  eftir Dr. Pál Hreinsson er hugtakið „stjórnvaldsákvörðun“ skilgreind með þeim hætti að um slíka ákvörðun sé að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.
 
Þegar Reykjavíkurborg tekur ákvörðun í málum sem varða borgarana er í lagalegu tilliti því talað um að tekin hafi verið „stjórnvaldsákvörðun“. Fjölmörg mál koma til kasta Reykjavíkurborgar og niðurstaða fæst í þessi mál með því að tiltekið stjórnvald innan borgarkerfisins tekur ákvörðun. Dæmigerð afgreiðsla Reykjavíkurborgar sem kalla má stjórnvaldsákvörðun er veiting eða synjun leyfa, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um beitingu sekta og agaviðurlaga, ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að grípa inn í aðstæður fjölskyldna, svo sem með því að vista börn utan heimilis og ákvörðun um að víkja barni úr skóla.


Hvað er málsmeðferð?

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 eru sett í þeim tilgangi að tryggja sem best réttaröryggi manna í samskiptum við hið opinbera. Lögin fela í sér að borgurunum eru tryggð ákveðin réttindi í samskiptum sínum við stjórnvöld og stjórnvöldum er að sama skapi settur ákveðinn rammi um hvernig standa skuli að stjórnvaldsákvörðun. Löggjafinn hefur því sett ákveðnar reglur um þá málsmeðferð sem borgarbúar mega gera ráð fyrir að eigi sér stað þegar þeir eiga í samskiptum við hið opinbera, þ.m.t. sveitarfélög. Þegar borgarbúar sækja þjónustu til Reykjavíkurborgar eða þegar þeir þurfa að þola bein afskipti borgarkrefisins, t.d. barnaverndarnefndar, eiga þeir kröfu um að málsmeðferð fari fram með ákveðnum hætti. Í þessu tilliti má nefna nokkrar meginreglur stjórnsýsluréttarins:
 
Málshraðaregla stjórnsýslulaga felur það í sér að taka skal ákvarðanir eins fljótt og unnt er en stjórnvöldum er óheimilt að draga á langinn að afgreiða mál (9. gr.).
 
Rannsóknarregla stjórnsýslulaga kveður á um að mál skuli vera nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun í því. Á stjórnvöld er því lögð ákveðin skylda að kalla eftir upplýsingum og gögnum áður en ákvörðun er tekin (10. gr.).
 
Jafnræðisregla stjórnsýslulaga kveður á um að afgreiða skuli sambærileg mál með sambærilegum hætti, að gæta skuli samræmis og óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggjast á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum (11. gr.).
 
Meðalhófsregla stjórnsýslulaga kveður á um að þegar íþyngjandi ákvörðun er tekin skuli beita vægasta úrræði sem völ er á og er nægjanlegt til að ná því markmiði sem er að stefnt (12. gr.).
 
Andmælaregla stjórnsýslulaga kveður á um að stjórnvaldi skuli að jafnaði gefa aðilum máls kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin. Í þessu felst að aðilar máls geti komið á framfæri athugasemdum sínum eða sjónarmiðum varðandi það sem skiptir máli (13. gr.).
 
Ennfremur er kveðið á um upplýsingarétt aðila máls að skjölum og gögnum sem málið varða (15. gr.) auk þess sem aðilar máls eiga rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðunum stjórnvalds (21. gr.).
 
Fyrir utan þær reglur um málsmeðferð sem fram koma í stjórnsýslulögum og öðrum lögum hefur Reykjavíkurborg sett sér verklagsreglur í fjölmörgum málaflokkum sem einnig hafa þýðingu við mat á því hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
 
Fagsvið ráðgjafar Innri endurskoðunar aðstoðar borgarbúa við að vega og meta hvort málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið í samræmi við þær kröfur sem stjórnsýslulög og önnur lög og reglur setja um málsmeðferð.


Hvað er mismunun?
 

Jafnræðisreglan eða bann við mismunun er ein grunnhugmynd mannréttinda. Jafnræðisregluna að finna í helstu mannréttindasamningum, í 65. grein stjórnarskrárinnar og er grundvallarregla í löggjöf Evrópusambandsins.
 

Jafnræðisreglan kveður á um að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli tiltekinna eiginleika eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Hugtökin jafnrétti og mismunun eru nátengd en það kallast mismunun þegar brotið er gegn jafnræðisreglunni. Að mismuna felur í sér að koma með ólíkum hætti fram við einstaklinga sem eru í sömu stöðu á grundvelli ákveðinna eiginleika á borð við kyn, uppruna, fötlun, heilsufar, kynhneigð, aldur, trúar- og stjórnmálaskoðanir. Mismunun á sér oft stað vegna fordóma sem byggðir eru á staðalímyndum* um ákveðna hópa.
 
Bann við mismunun krefst þess að sambærileg tilvik fái sömu meðferð. Okkar eigin fordómar mega ekki verða til þess að við komum ólíkt fram við einstaklinga í sömu stöðu.
 
Mismunandi meðferð svipaðra tilvika brýtur ekki alltaf gegn jafnræðisreglunni. Það þarf hins vegar að sýna fram á að mismununin sé réttmæt og að málefnalegar ástæður liggi að baki.
 
Til dæmis geta starfskröfur fyrir tilteknar starfsgreinar útilokað ýmsa hópa og einstaklinga frá því að sækja um starf. Þrátt fyrir að mannréttindastefna Reykjavíkurborgar kveði á um að atvinnuauglýsingar skuli vera kynhlutlausar þykir það ekki vera mismunun að auglýsa sérstaklega eftir kvenkyns baðverði í kvennaklefa og öfugt.
 
Aðrar ástæður, sem teljast málefnalegar, eru sértækar aðgerðir með vísan til jafnréttislöggjafar, þegar sérstakar ráðstafanir eru gerðar vegna fólks með fötlun og ákveðnar undantekningar sem tengjast aldri. Það er því ekki mismunun þegar málefnalegar ástæður liggja að baki þess að svipuð tilvik fái ólíka meðferð.
 
*(Staðalímyndir eru fyrirfram ákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópi eða stétt innan samfélagsins, eins og hvernig það á að hegða sér og hvaða störf eru við hæfi þess).
 

BEIN MISMUNUN
 
Bein mismunun telst vera þegar ómálefnalegar eða ólögmætar ástæður liggja að baki mismununinni. Einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar vegna kyns, kynhneigðar, fötlunar, aldurs, heilsufars, trúar- og stjórnmálaskoðana eða annarrar stöðu.
 
Dæmi um beina mismunun er þegar hæfur umsækjandi, sem jafnframt er blindur, er ekki tekinn til greina við ráðningu í skrifstofustarf þar sem vinnuveitandi gerir ráð fyrir að blindir séu ekki jafnfærir á tölvur og þeir sem sjá.
 
Dæmi um beina mismunun vegna aldurs: Starfsmanni er tjáð að hann fái ekki að sækja símenntun vegna þess að hann fari brátt á eftirlaun.
 

ÓBEIN MISMUNUN
 
Óbein mismunun á sér stað þegar ráðstafanir, skilyrði eða viðmið sem virðast hlutlaus eru tilteknum hópi óhagstæðari í samanburði við aðra. Það telst hins vegar ekki vera óbein mismunun ef hægt er að rökstyðja ráðstafanirnar sem gerðar eru, skilyrðin sem eru sett eða viðmiðin á hlutlausan hátt og þær miða að lögmætu markmiði.
 
Dæmi um óbeina mismunun: Nyamko fer í sund. Hún klæðir sig í sundföt, fer í sturtu og gerir sig líklega til að stinga sér í laugina. Hún er þá stoppuð af baðverði sem bendir henni á að í sundlaugum borgarinnar eigi sundgestir að þvo sér vandlega án sundfata áður en þeir fara í laugina. Nyamko segir að sökum trúarskoðana sinna þá geti hún ekki afklætt sig fyrir framan aðra. Baðvörður segir að hún megi ekki fara í laugina án þess að þvo sér án sundfata. Hún biður þá um aðgang að aðstöðu þar sem hægt sé að þvo sér í lokuðu rými. Í þessari sundlaug er slík aðstaða ekki í boði og því kemst Nyamko ekki í sund.
 

FJÖLÞÆTT MISMUNUN
 
Fjölþætt mismunun á sér stað þegar fólk verður fyrir mismunun á grundvelli tveggja eða fleiri þátta.
 
Dæmi um fjölþætta mismunun: Karlmaður, sem einnig er múslimi, er hæfasti einstaklingurinn í hópi umsækjenda í starfi með börnum hjá borginni. Hann fær ekki stöðuna og leggur fram kvörtun. Yfirmaðurinn á starfsstaðnum harðneitar því að mismunun hafi átt sér stað og bendir á að á vinnustaðnum starfi bæði karlmaður og múslímsk kona. Þegar málið er skoðað nánar þykir þó ljóst að mismunum hafi átt sér stað á grundvelli þess að maðurinn var bæði karlkyns og múslimi.


Hvað er æðra stjórnvald?

Ákvarðanir sem borgaryfirvöld taka í skjóli opinbers valds er oft hægt að fá endurskoðaðar, ýmist af borgaryfirvöldum sjálfum eða öðrum stjórnvöldum. Er þá oft talað um að ákvörðun sé skotið til æðra settra stjórnvalda. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar Reykjavíkurborg neitar að veita aðgang að upplýsingum úr gagnagrunni sínum þá má skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, skjóta má ákvörðunum um tiltekna þætti í framkvæmd útboða til kærunefndar útboðsmála, úrskurðum og einstökum ákvörðunum barnaverndarnefndar Reykjavíkur má skjóta til kærunefndar barnaverndarmála og svo mætti lengi telja. Þessi æðra settu stjórnvöld eru í öllum tilvikum fjölskipuð stjórnvöld, þ.e. fleiri en einn einstaklingur situr í hverri nefnd og í flestum tilvikum eru niðurstöður bindandi fyrir borgarana.
 
Innan Reykjavíkurborgar eru einnig til æðra sett stjórnvöld sem geta endurskoðað tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið innan borgarkerfisins. Sem dæmi má nefna að innkauparáð skal taka fyrir og afgreiða þær kvartanir og ábendingar sem ráðinu berast frá bjóðendum eða seljendum vöru, verka og þjónustu, enda heyri málið ekki undir kærunefnd útboðsmála, ákvörðunum starfsmanna velferðarsviðs og þjónustumiðstöðva í einstaklingsmálum verður skotið til áfrýjunarnefndar velferðarráðs og svo mætti áfram telja.
 
Innri endurskoðun aðstoðar þá aðila sem telja á rétti sínum brotið við að leita leiða til að fá ákvarðanatöku innan borgarkerfisins endurskoðaða. Innri endurskoðun er hins vegar ekki æðra sett stjórnvald í skilningi laga og getur ekki með bindandi hætti fellt úr gildi, staðfest eða breytt ákvörðunum Reykjavíkurborgar.