Um okkur

Innri endurskoðun

Innri end­ur­skoð­un

Markmið innri endurskoðunar er að veita óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur samstæðu borgarinnar.

Skilgreining Alþjóðasamtaka innri endurskoðenda (IIA) á innri endurskoðun:

Starfsemi sem veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf, sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlits og stjórnarhátta og stuðlar þannig að því að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök nái markmiðum sínum.“

Alþjóðlegir staðlar um framkvæmd innri endurskoðunar, „International Standards for the Professional Practice of Internal Auditing”  eru faglegur grunnur að starfsemi innri endurskoðunar og ber okkur að fylgja þeim í hvívetna. Staðlarnir fela í sér skilgreiningu á innri endurskoðun, siðareglur og viðmið um faglega framkvæmd innri endurskoðunar.

Við sinnum innri endurskoðun innan A-hluta Reykjavíkurborgar og B-hluta á grundvelli samkomulags við stjórn viðkomandi dótturfélags. Viðskiptavinir okkar eru borgarráð, endurskoðunarnefnd, fagráð, stjórnir dótturfélaga og stjórnendur.

Verk­efni innri end­ur­skoð­un­ar

Innri endurskoðun metur fyrirkomulag og virkni áhættustýringar, innra eftirlit og stjórnarhætti og styður þannig Reykjavíkurborg og dótturfélög í því að ná markmiðum sínum.

Innri endurskoðun veitir þjónustu sem ætlað er að auka virði og bæta starfsemi og stjórnsýslu samstæðu borgarinnar. Við veitum hlutlaust mat á fyrirkomulagi og skilvirkni stjórnarhátta, áhættustýringar og innra eftirlits í samræmi við staðlana. Samkvæmt skilgreiningu staðlanna er þjónustan tvíþætt, annars vegar staðfestingarvinna og hins vegar ráðgjöf.

Staðfestingarvinna felur í sér hlutlægt mat á gögnum til þess að gefa óháð álit eða niðurstöður varðandi rekstrareiningu, rekstur, starfsemi, ferli, kerfi eða aðra efnisþætti. Eðli og umfang staðfestingarverkefna er ákveðið af innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. 

Ráðgjafarþjónusta er ráðgefandi í eðli sínu og er almennt veitt samkvæmt beiðni viðskiptavinar. Algengt er að í úttektum sé um að ræða blandaða nálgun, þ.e. bæði staðfestingu og ráðgjöf.

Innri endurskoðun leggur mat á stjórnarhætti með skilvirkni og gagnsæi að leiðarljósi. Þá metur innri endurskoðun og gerir viðeigandi tillögur til úrbóta á stjórnarháttum, áhættustýringu og eftirliti. Innri endurskoðun leggur mat á virkni eftirlits til að bregðast við áhættu tengdri stjórnarháttum, upplýsingakerfum og rekstri og hvetur til stöðugra úrbóta. Jafnframt skal innri endurskoðun greina misferlisáhættu.

Er­ind­is­bréf

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum þann 18. september 2023 erindisbréf fyrir fagsvið innri endurskoðunar.  Í samþykkt borgarstjórnar fyrir Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar og innri endurskoðanda frá 15. júní 2021 kemur fram að setja eigi erindisbréf í samræmi við alþjóðlega staðla um innri endurskoðun.  Erindisbréfinu er ætlað að skilgreina með nánari hætti tilgang fagsviðsins, heimildir og ábyrgð með formlegum hætti.  

Erindisbréf fyrir fagsvið innri endurskoðunar